141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:00]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Á sínum tíma flutti formaður Samfylkingarinnar dálítið fræga ræðu sem kölluð var Borgarnesræðan. Hún fjallaði meðal annars um að það væru hópar í þjóðfélaginu sem þyrftu að óttast stjórnvöld vegna þess að þaggað væri niður í þeim, annaðhvort væri maður með þeim í liði eða á móti þeim. Nú eru sérfræðingarnir í liði á móti stjórnarflokkunum. Allt það versta sem fjallað var um í Borgarnesræðunni á sér í raun stað í dag vegna þess að fjölmargir stjórnarliðar og meira að segja stjórlagaráðsliðar töluðu þannig til þeirra sem tjáðu sig málefnalega um tillögu stjórnlagaráðs, færðu fram málefnalega gagnrýni á efni málsins og málsmeðferðina, uppskáru hvað? Þeir voru sagðir vera „svokallaðir“ sérfræðingar og að þeir væru í fílabeinsturni. Þingið var kölluð steypa af aðstoðarmanni forsætisráðherra o.s.frv. Hvers konar skilaboð eru það? Hvers konar upptaktur er það fyrir málefnalega umræðu um stjórnarskrána? (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Dæmi hver sem vill. Mér finnst það ekki til eftirbreytni.