141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:08]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur óskað eftir því að veita andsvar við ávarpsorð mín, hæstv. forseti. Það verður athyglisverð ræða sem hér verður flutt og vonandi fær þingmaðurinn tvær mínútur til þess að flytja hana.

Við stöndum frammi fyrir viðamiklu verki. Við erum með þingskjal upp á ríflega 250 blaðsíður. Ég ætla ekki að þykjast hafa lesið hvert einasta orð sem þar er, en ég mun gera það og ég veit það munu aðrir þingmenn einnig gera.

Það er viðamikið verk fram undan en það er líka mjög viðamikið verk að baki. Ég hlýt að rifja upp ólíkan og einstakan aðdraganda og vinnulag við undirbúning þessa frumvarps að nýrri stjórnarskrá frá því sem áður hefur verið. Hér hefur ekki aðeins ein tylft þingmanna og sérfræðinga komið að, heldur hundruð, þúsund og tugþúsundir manna.

Ferlið hófst allt upp úr kosningunum 2009. Upphafið má kannski segja að sé vinna stjórnlaganefndar sjö manna í samræmi við lög frá því í júní 2010, og síðan þjóðfundurinn sem nær þúsund manns sátu í nóvember það ár og lögðu fram gildi sem ný stjórnarskrá skyldi byggja á. Kosið var til stjórnlagaþings 27. nóvember 2010 og tóku yfir 80 þúsund manns þátt í því kjöri. Yfir 500 manns buðu sig fram. Stjórnlagaráðið, eins og það var síðan nefnt eftir að Alþingi skipaði það til verka á vormánuðum 2011, beitti nútímalegum aðferðum við vinnu sína, útvarpaði og sjónvarpi fundum sínum beint um vefinn, lagði jafnóðum út á vefinn öll gögn og tillögur og tók við og svaraði athugasemdum og spurningum frá almenningi sem skiptu hundruðum. Frá því að stjórnlagaráð skilaði einróma niðurstöðu sinni í frumvarpi til nýrra stjórnarskipunarlaga til forseta Alþingis 27. júlí 2011 hefur einnig mikil vinna farið fram. Sú vinna hefur einkum verið í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd en einnig í stjórnlagaráði, sem kallað var saman síðastliðið vor til að hitta nefndina og fara yfir ýmsar spurningar og athugasemdir sem leiddu til nokkurra breytinga á frumvarpi ráðsins.

Það er leitt að hv. þingmaður Bjarni Benediktsson hefur vikið sér frá umræðunni því að ég fullyrði að tíminn í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur verið nýttur mjög vel þvert á það sem hv. þingmaður sagði áðan.

Nánast hvert einasta atriði í frumvarpi stjórnlagaráðs hefur verið sent út til efnislegrar umsagnar. Við höfum fengið athugasemdir og ábendingar við fjöldamörg og ég hygg flest atriði sem borið hefur á góma í umræðunni í dag. Tíminn hefur því sannarlega verið nýttur vel. Þess vegna stöndum við nú frammi fyrir mjög góðu verki.

Þjóðaratkvæðagreiðslan 20. október síðastliðinn var svo lokapunkturinn á þessu skrefi í ferlinu. Ég minni á að í henni tóku þátt hvorki meira né minna en 115.814 menn með kosningarrétt í landinu þannig að ljóst er að þúsundir og aftur þúsundir, tugþúsundir og hundruð þúsunda hafa komið að þessari vinnu. Það er einstakt í vinnu sem þessari á okkar tímum.

Þegar frumvarpið var komið inn eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna tók sérfræðingahópurinn við, sem verið hefur nokkuð til umræðu, og vann vandað álit og breytingartillögur við frumvarpið. Hann skilaði greinargerð við það í heild og einstakar greinar og meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar leggur frumvarpið þannig fram óbreytt.

Ég vil nota tækifærið og þakka öllum stjórnlagaráðsmönnum sérstaklega, stjórnlaganefndinni og sérfræðingahópnum og öllum þeim einstaklingum, lærðum og leikum, sem komið hafa að þessu mikla verki. Aðkoman er eins ólík og mennirnir eru margir. Sumum er hugleikinn einn og einn kafli í stjórnarskránni. Aðrir eru sérfræðingar í tilteknum atriðum. Enn aðrir bera heildina fyrir brjósti og jafnvel það eitt að við skrifum sjálf okkar stjórnarskrá þótt seint sé, í stað þeirrar sem samþykkt var í nokkru hasti 1944. Á öll sjónarmið hefur verið hlustað. Þannig hlýtur það líka að verða áfram við þinglega meðferð málsins.

Allsherjarnefnd og síðar stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd lagði verkferlið upp eins og ég hef hér rakið það. Við höfum einnig rætt og undirbúið hvernig vinnunni megi best halda áfram, allt í því augnamiði að Alþingi geti fyrir þinglok í vor samþykkt frumvarp að nýrri stjórnarskrá.

Umræðan sem nú er að hefjast verður efnismikil. Ég ætla ekki að fara í einstakar greinar frumvarpsins á þessu stigi. Hv. formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur gert það rækilega. Mér er þó jafnt farið og mörgum að ég á mér uppáhaldskafla í frumvarpinu, sérstaklega tvo kafla sem eru auðir í núgildandi stjórnarskrá, þ.e. tillögurnar um auðlindaákvæðið, eign þjóðarinnar á náttúruauðlindum, sem ekki er að finna staf um í núgildandi stjórnarskrá. En nú stöndum við frammi fyrir ítarlegum og vel útfærðum tillögum um hvernig tryggja megi þjóðareign á auðlindum okkar í landinu. Sama á við um þjóðaratkvæði, að þjóðin geti kallað til sín mál til þjóðaratkvæðis.

Það hafa frá upphafi verið stefnumið Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að ákvæði um þjóðareign á auðlindum og þjóðaratkvæði verði færð í stjórnarskrá. Um það höfum við oftlega gert tillögur í þingsal og í stjórnarskrárnefndum sem fulltrúar flokksins hafa átt aðild að. Nú taka sem betur fer sífellt fleiri og jafnvel flestir undir þá kröfu. Í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október síðastliðinn, sem tæplega helmingur þjóðarinnar tók þátt í, var mestur stuðningur við ákvæði um þjóðareign á auðlindum. Yfir 80% þeirra sem komu á kjörstað vilja hafa það í stjórnarskrá. Stuðningurinn við þjóðaratkvæði í stjórnarskrá var einnig mjög mikill, yfir 70% sem tóku þátt í kosningunum styðja það. Á það ber okkur að hlusta.

Það er líka sérstaklega ánægjulegt að umræðan hefur þroskast. Eins og greinargerðin við þessa kafla ber með sér hefur verið sótt í smiðju fræðimanna, bæði innan lands og utan, og skotið föstum stoðum, bæði lögfræðilegum og heimspekilegum, undir það orðalag sem nú er að finna í frumvarpinu í kaflanum um náttúru Íslands og umhverfi, náttúruauðlindir, upplýsingar um umhverfi og málsaðild, sjá 33., 34. og 35. gr. Sama má segja um 65 gr., um málskot til þjóðarinnar, og 67. gr., um framkvæmd undirskriftasöfnunar og þjóðaratkvæðagreiðslu. Allt er það mjög skýrt orðað og mun betra að mínu viti en við höfum áður haft tillögur um hér á borðum. Það er nefnilega rétt að komið hafa fjölmargar tillögur að bæði þjóðaratkvæði og þjóðareign á náttúruauðlindum inn á borð þingsins.

Ég ætla ekki að rekja orðalagið, sem ég er þó mjög hrifin af í þessum greinum og ég veit að margir hér inni eru mér sammála um það.

Að lokinni 1. umr. mun málið fara til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á ný. Ég legg mikla áherslu á að við nýtum tímann milli umræðna mjög vel. Formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur nú þegar, í samráði við nefndina og í samræmi við tillögur sérfræðihópsins, óskað eftir því að Feneyjanefndin fari yfir og gefi álit á frumvarpinu, einkum hvað varðar valdmörk, starfsemi og samspil milli stofnana, eins og Alþingis, ríkisstjórnar og forseta, í ljósi breytinga sem lagðar eru til á gildandi reglum og auknum möguleikum á þjóðaratkvæðagreiðslum. Enn fremur að við viljum fá greiningu á kosningakerfinu sem lagt er til og áhrifum þess á fulltrúalýðræðið.

Upplýst er að drög að áliti nefndarinnar gætu legið fyrir í upphafi nýs árs. Þannig mun gefast góður tími til að fara yfir þau fyrir þinglok og 2. eða 3. umr. eftir því hvernig vinnunni hefur undið fram í þinginu þegar þar að kemur.

Eins og komið hefur fram höfum við rætt um hvernig þinglegri meðferð væri best fyrir komið. Við höfum hug á því í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að flestir og helst allir, hver einn og einasti þingmaður, komi að þeirri vinnu. Hugmyndin er að allar nefndir Alþingis fjalli um einstaka hluta frumvarpsins, þá sem falla undir málefnasvið hverrar nefndar. Hver nefnd mundi veita stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd umsögn um þann hluta sem fjallað hefur verið um í samræmi við 4. mgr. 23. gr. laga um þingsköp Alþingis. Þá, eins og hér hefur komið fram, er nefndunum að sjálfsögðu í sjálfsvald sett hvernig þær vinna umsögn sína, kalla á gesti eða kalla eftir umsögnum, allt eftir því sem menn vilja við hafa.

Það er ekki hægt að fara nákvæmlega eftir skiptingu greinanna vegna þess að sum ákvæði heyra til tveggja nefnda og sum ákvæði, svo sem mannréttindaákvæðið, getur verið eðlilegt fari í aðrar fastanefndir, t.d. einstaka hlutar mannréttindakaflans, þó að ákvæðið heyri til málefnasviðs allsherjar- og menntamálanefndar.

Eins og ég sagði áðan gætu ýmis ákvæði farið til umsagnar fleiri en einnar nefndar. Ég nefni ákvæðið um eignarrétt. Ég nefni ákvæðið um náttúruauðlindir og hagnýtingu þeirra, sem á heima bæði í umhverfis- og samgöngunefnd og í hv. atvinnuveganefnd. Það má jafnvel reikna með að mismunandi áherslur yrðu lagðar í þeirri vinnu.

Þær hugmyndir þurfum við að ræða á fyrsta fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar eftir að frumvarpinu hefur verið vísað þangað. Ég ætla að leyfa mér að stikla á stóru í því hvernig hægt væri að skipta þeirri vinnu á milli okkar þingmanna eftir því hvar við sitjum í nefndum. Allsherjar- og menntamálanefnd mundi þannig fjalla um ríkisborgararéttinn og 6.–11. gr., um mannréttindin, eignarréttinn, tjáningar- og upplýsingafrelsi, menntun, mannréttindi, skipun embættismanna, dómsvaldið og einnig um 26. og 32. gr. í II. kafla, um mannréttindi.

Atvinnuveganefnd mundi að sjálfsögðu fjalla um náttúruauðlindir en einnig um eignarréttinn og um atvinnufrelsi. Efnahags- og viðskiptanefnd mundi sömuleiðis fjalla um eignarréttinn og um skatta. Fjárlaganefndin mundi fjalla um þá kafla sem til hennar heyra í bæði almennum greinum og sköttum og í sambandi við III. kafla, um Alþingi. Forsætisnefnd mundi fjalla um hlutverk Alþingis, gildi kosninga, starfstíma Alþingis o.s.frv., sjálfstæði alþingismanna, um friðhelgi, um þingforseta, þingnefndir, fyrirkomulag þingnefnda og um opna fundi og þingrof.

Svona gæti ég haldið áfram að telja. Umhverfis- og samgöngunefnd mundi að sjálfsögðu fjalla um náttúru Íslands, náttúruauðlindir, dýraverndina, málsaðildina og sveitarfélögin. Utanríkismálanefnd fjallaði um utanríkismál og fullveldisframsalið, en það mundi einnig fara til sérstakrar umfjöllunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eins og nokkur önnur atriði. Velferðarnefnd mundi fjalla um mannréttindi að því er lýtur að börnum, félagslegum réttindum, heilsu og heilbrigðisþjónustu, menntun og atvinnufrelsi. Þingskapanefndin mundi fjalla um þingsköp, flutning þingmála, málskot til þjóðarinnar, þingmála, frumkvæði kjósenda o.s.frv.

Herra forseti. Þessar hugmyndir eru ekki annað en von um að hver einasti þingmaður í þessum sal vilji leggja sitt af mörkum eins og tugir, hundruð og þúsunda Íslendinga hafa gert á síðastliðnum þremur árum, og leggja á sig mikla vinnu til að tryggja að við megum nýta sem best það einstaka tækifæri sem við höfum til að fylgja þjóðarvilja á þessu þingi og samþykkja (Forseti hringir.) frumvarp að nýrri stjórnarskrá fyrir næstu þingkosningar.