141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:31]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur fyrir ræðuna og þær hugmyndir sem þar komu fram. Í þeirri ræðu var talað um einstakt vinnulag. Ég get tekið undir þau orð en set kannski ýmis önnur formerki við þau en hv. þingmaður. Snemma í ræðunni var talað um að tugþúsundir hefðu komið að þessari vinnu og þingmaðurinn bætti um betur og sagði að hundruð þúsunda hefðu komið að þessari vinnu. Ég veit ekki alveg hvernig hægt er að reikna dæmið þannig en látum það nú allt eiga sig.

Einnig kom fram hjá hv. þingmanni að við — það er væntanlega Alþingi og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fyrir hönd okkar — hefðum fengið fjölmargar athugasemdir frá upphafi. Nú vil ég spyrja: Hvar sér þess stað í þessum tillögum að þær athugasemdir hafi borist? Síðar í ræðu þingmannsins kom fram að á öll þessi sjónarmið sérfræðinga hefði verið hlustað. Þá vil ég jafnframt spyrja hv. þingmann, herra forseti: Hvar sér þess stað í þessum tillögum að á þær athugasemdir hafi verið hlustað og að þær hafi verið teknar til greina?

Hv. þingmaður minntist einnig á þjóðaratkvæðagreiðsluna sem var um daginn, þá ráðgefandi, og hér var fjallað um aukinn rétt til þjóðaratkvæðagreiðslna og aukið persónukjör sem menn vissulega studdu. Ég þekki fjölmarga og þeir voru flestir á því að þetta væri hvort tveggja til bóta. Ég þekki hins vegar nokkra sem greiddu atkvæði gegn þessu vegna þess að ekki var spurt um neina þröskulda í þessum efnum. Það var ekki spurt: Hvað þarf stóran hlut, er það 10% eða 20%? Sumir sem vildu (Forseti hringir.) aukinn möguleika á þjóðaratkvæðagreiðslu vildu (Forseti hringir.) kannski binda það við 20% eða 15% (Forseti hringir.) en ekki 10% og eins var það með persónukjörið. (Forseti hringir.) Þetta voru því ekki skýr (Forseti hringir.) fyrirmæli.