141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:12]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í umsögn sérfræðingahópsins og fylgigögnum er að finna minnisblöð frá prófessor Gunnari Helga Kristjánssyni um ýmsa þætti sem varða þessar tillögur um breytingar á stjórnarskrá, t.d. varðandi forsetakjör, stöðu forsetans, þjóðaratkvæðagreiðslur og slíka þætti. Að áliti prófessorsins er þar um að ræða svo veigamiklar breytingar að rýna þurfi þær mjög rækilega enda snúi þær að stjórnskipan landsins.

Þá er í umsögn sérfræðingahópsins gerð breyting á því ákvæði tillögunnar er snýr að breytingum á stjórnarskrá. Að mati sérfræðingahópsins er rétt, þegar breyta skal mannréttindakafla stjórnarskrárinnar, að fylgja gömlu aðferðinni, þ.e. núgildandi aðferð um breytingu á stjórnarskrá. Mannréttindakaflinn sé svo mikilvægur að það þurfi sérstaka athugun þegar honum á að breyta. Mannréttindakafli núgildandi stjórnarskrár er reyndar nýjasta viðbótin við stjórnarskrána, hann er frá 1995. Engu að síður er um að ræða verulegar breytingar á honum í tillögum stjórnlagaráðs.

Nú langar mig að fá álit hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á því hvort hann telji að það sama eigi að gilda um stjórnskipan landsins ef fram kemur tillaga um að afnema skuli þingræði, hvort þá eigi að beita þessari aðferð sem við þekkjum nú í stjórnarskrá, að ræða það á tveimur þingum með kosningum á milli, eða hvort hann telji það minni háttar breytingu sem eigi að fara eftir (Forseti hringir.) tillögum stjórnlagaráðs.