141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Margréti Tryggvadóttur sem ég þakka fyrir ágæta ræðu, þetta er ákveðinn hátíðisdagur. Við erum að ræða í fyrsta sinn í sölum þingsins efnislega um hugmyndir stjórnlagaráðs og samt er það búið að vera hérna inni í 15 mánuði frá því að það var afhent Alþingi til skoðunar. Mér er sagt að það hafi verið rætt mikið í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og það er ágætt en það er ekki gott fyrir okkur þingmenn sem ekki sitjum í þeirri nefnd. Við fáum enga nasasjón af þeirri efnislegu umræðu sem þar á sér stað.

Mig langar að spyrja hv. þingmann þriggja spurninga.

1. Telur hún að gildandi stjórnarskrá hafi átt sök á hruninu? Eru tengsl þar á milli, þ.e. gildandi stjórnarskrár og hrunsins?

2. Í þeirri miklu efnislegu umræðu í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem formaður nefndarinnar ræddi um hérna hefur eflaust verið rætt um umsagnir, þar á meðal um 37 síðna umsögn mína til nefndarinnar, ég geri ráð fyrir að menn hafi lesið hana lið fyrir lið. Var eitthvað þar sem vakti athygli hennar og hún kynni að fallast á, m.a. fjöldann allan af breytingartillögum um að vald stjórnarskrárinnar yrði ekki fært yfir á Alþingi með því að segja að „tryggja skuli með lögum“ þetta og hitt?

3. Ég veit að hv. þingmaður er mjög hrifinn af skrúðmælgi eins og „öll eigum við rétt á að lifa með reisn“ en hvað þýðir það eiginlega, fyrir utan 101 Reykjavík? Hvað þýðir að lifa með reisn? Getur þræll lifað með reisn ef hann fær kaffi á morgnana? Er ekki frelsi meira virði en að lifa með reisn? Svo spyr ég: Hvað þýðir að hafa meðfæddan rétt til lífs? Ég hef spurt þess áður: Hvað gerist viku fyrir fæðingu?