141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:35]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er eitt af því sem hefur ávallt skotið upp kollinum í þessari umræðu, að sjálfstæðismenn séu ekki reiðubúnir til að gera breytingar eða leggja inn í stjórnarskrá ákvæði um náttúruauðlindir í þjóðareign. Það er reyndar þannig að í tveimur ríkisstjórnum sem Sjálfstæðisflokkurinn átti aðild að og var í forsæti fyrir var það í stjórnarsáttmála að slíkt ákvæði skyldi skrifað og fært inn í stjórnarskrá.

Það var reyndar ekki gert en það var hins vegar þar með yfirlýstur vilji þingflokks Sjálfstæðisflokksins á þeim tíma. Það hefur líka lengi verið stefna flokksins á landsfundum og ég veit ekki betur en t.d. ég og reyndar formaður flokksins og bara nánast allir þingmenn hans hafa ítrekað þá afstöðu sjálfstæðismanna að þetta ákvæði skuli færa inn í stjórnarskrá.

Ég get alveg viðurkennt að við höfum auðvitað verið að takast á um það á milli flokkanna hvernig þetta orðalag eigi að líta út nákvæmlega og um skýrleika þess. Við höfum nefnt hér sem okkar innlegg inn í þetta mál t.d. þær tillögur sem eru hjá stjórnlaganefndinni, sem vann í kjölfar þjóðfundarins og undirbjó mjög viðamikla skýrslu og mjög gagnlega fyrir stjórnlagaráðið. Ég vonast til þess að við í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd munum líka skoða hana þegar við förum að skoða þetta mál í vetur.

Ég er því alveg sannfærð um og hef reyndar alltaf verið þeirrar skoðunar að ef við mundum einsetja okkur að ná slíku samkomulagi væri það hægt. Ég get ekki fallist á það sem kom fram hjá hæstv. forsætisráðherra að sátt þýði að menn þurfi að gefa eftir, að það séu bara einhverjir aðrir sem ráða. Sátt felur það í sér að menn nái saman um grundvallaratriði. Ég trúi því að þarna sé flötur til að ná samstöðu.