141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[19:08]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins út af jöfnu vægi atkvæða þá er það þannig að ef menn vildu jafna vægið væri einfalt að gera það með núverandi kjördæmaskipan með þeim hætti að fækka þingmönnum landsbyggðarkjördæmanna um sex og fjölga þingmönnum höfuðborgarsvæðisins um sex. Þannig væri hægt að ná því markmiði.

Það er hins vegar hægt að færa fyrir því rök að sú leið sem stjórnlagaráðið leggur til muni leiða til þess að hlutur landsbyggðarinnar verði mjög lítill og það eru allar líkur á því, eins og við sáum t.d. í stjórnlagaþingskosningunum, að hlutur landsbyggðarinnar á landslista verði mjög lítill, eins og bent hefur verið á. Þess vegna held ég að þarna sé gengið allt of langt og að það veiki stöðu landsbyggðarinnar.

Ég tek undir það sem hæstv. ráðherra sagði varðandi stöðu Alþingis. Ég tel að sá kafli frumvarpsins sé meingallaður og lýsi mjög miklum þekkingarskorti þeirra sem sömdu hann. Hægt er að nefna fjölmörg ákvæði í því sambandi, bæði það sem hæstv. ráðherra sagði og eins það sem sagt er um vanhæfi þingmanna. (Forseti hringir.) Það er að mínu mati fullkomin rökleysa og tekur allt of mikið mið af vanhæfisreglum embættismanna, eins og kemur fram í áliti sérfræðingahópsins, (Forseti hringir.) sem eiga alls ekki við þegar um þingmenn er að ræða.