141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[23:04]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég skildi hv. þingmann ekki þannig að hann hefði talað gegn jöfnun atkvæðavægis og það bar ekki að skilja orð mín á þann veg. Í hjarta mínu er ég ekki mótfallin jöfnun atkvæðavægis, ég vil bara að við þá jöfnun verði ekki til annað óréttlæti sýnu verra og um það held ég að við þingmaðurinn séum sammála.

Um blöndu landskjörs og kjördæmakosningar, ég hef hugsað þetta líka. En eins og ég segi, ég held að fara verði mjög vel yfir þetta með þar til bærum sérfræðingum. Ekki er ég með þá lausn á reiðum höndum hvernig þetta getur komið út. Mér sýnist samt að þingið eigi alla möguleika á að útfæra þetta nánar, ef ekki með tillögu að breyttu stjórnarskrárákvæði þá með lögum í anda þess ákvæðis sem heimilar þetta. Hvort fulltrúatalan, að binda þetta við 30 þingsæti en ekki eitthvað fleiri — ég á erfitt með að leggja mat á það að svo stöddu en treysti hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til að fara mjög vel yfir þetta.