141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[23:07]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það sætir eiginlega tíðindum að ég og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson skulum vera svona hjartanlega sammála en það erum við núna. Ég tek undir það með þingmanninum að þessi umræða, þessi krafa; einn maður, eitt atkvæði, hljómar vel og enginn vill í hjarta sínu vera mótfallinn því. En þetta getur haft aðrar og óskemmtilegri afleiðingar, þ.e. að ýta undir áhrifaleysi ákveðinna landshluta og byggðarlaga og landsbyggðarinnar í heild sinni andspænis höfuðborginni.

Ég hef stundum líkt þessu við það að við Íslendingar gengjum í Evrópusambandið og ættum þar aðild að ráðherraráðinu. Þar sitja löndin með eitt atkvæði hvert og ekki væri gerður greinarmunur á því hvort Ísland er 300 þúsund manna þjóð, ef við sætum við það borð, eða annað land með 30 milljónir. Það rynnu nú á okkur tvær grímur ef það ætti að fara að smætta atkvæðavægi Íslands við það borð, ef við sætum þar inni, með tilliti til íbúafjölda. Þetta er svipað því sem um er að ræða, finnst mér, í sambandi við jafnt atkvæðavægi í þessum nýju stjórnarskrártillögum. Landsbyggðin, kjördæmin, þarf að eiga sér sína fulltrúa og sína málsvara því að það eru samfélög sem standa að baki hverjum fulltrúa, ekki bara íbúafjöldi. Hversu margar kirkjur, hversu marga skóla, hversu mörg þorp þarf til að réttlæta það að ákveðinn þingmaður hafi ákveðið vægi á Alþingi Íslendinga?

Við erum bara sammála um þetta en ég vona líka að þessi rökræða okkar veki þá sem eiga um þetta að fjalla til verulegrar umhugsunar um það hvernig best sé að útfæra málið í þeirri stöðu sem það er núna.