141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Í efnahags- og viðskiptanefnd ræðum við hvernig við getum tryggt í lögum um ársreikninga að fyrirtæki gefi upp nöfn á öllum eigendum þannig að eignarhaldið verði rekjanlegt til einstaklinga en ekki til annarra lögaðila. Í dag vitum við t.d. að ALMC á Straum fjárfestingarbanka en við vitum ekki hver á ALMC. Skortur á upplýsingum er ein meginástæða þess að teknar eru rangar ákvarðanir í samfélaginu.

Almenn skylda fyrirtækja til að upplýsa um eignarhald er ekki íþyngjandi fyrir fyrirtækin í landinu. Upplýsingar um eigendur og eignarhluti þurfa nefnilega að liggja fyrir áður en aðalfundur er haldinn. Samfélagslegur ávinningur af því að skylda fyrirtæki til að upplýsa um alla eigendur er margþættur.

Í fyrsta lagi kemur gegnsætt eignarhald fyrirtækja í veg fyrir að fjárfestar geti ástundað skattundanskot.

Í öðru lagi þýðir gegnsætt eignarhald það að auðveldara verði fyrir fjármálastofnanir að fá yfirsýn yfir eignir og skuldbindingar viðskiptavina sinna, sem dregur úr áhættu í lánveitingum.

Í þriðja lagi á almenningur rétt á að vita hvaða einstaklingar standa að baki félagi með takmarkaða ábyrgð þar sem eigendur þeirra bera sjálfir ekki ábyrgð á öllum skuldbindingum félagsins.

Í fjórða lagi má spyrja sig hvort ekki sé jafnmikil ástæða til að upplýsa um eignarhald fyrirtækja og að upplýsa um hver á fasteign.