141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:24]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ef ég vísa til skýringa stjórnlagaráðs kemur fram í þeim að ákvæðinu er einungis ætlað að tryggja að allir þeir sem skólaskylda nær til skuli eiga kost á að njóta menntunar í boði stjórnvalda, kjósi þeir að þiggja hana, án þess að greiða fyrir hana beint. Ég tel að skýringar stjórnlagaráðs sýni hugsunina á bak við ákvæðið og ég skil það nákvæmlega eins og ég sagði, þ.e. ég horfi til þess almenna grunnskólakerfis sem við rekum, sem sveitarfélögin reka, þar sem nemendum stendur til boða menntun án endurgjalds, raunar oft líka námsbækur en kannski ekki öll ritföng og allar bækur. Ég lít svo á að þarna sé í raun verið að boða þetta. En það er einnig sagt í skýringum stjórnlagaráðs að skólaskyldualdur kann að breytast til lengri tíma og það kann að hafa áhrif því við tökum gjöld fyrir leikskóla og í framhaldsskóla greiða menn líka skráningargjöld.