141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég átta mig á að þetta er mjög stuttur tími og ég fékk ekki svar við sanngjörnu laununum, en ég vil spyrja hæstv. ráðherra um hlutverk forsetans. Er ekki forsetinn í rauninni orðinn óþarfur? Ég hef reyndar lagt til áður að forsetaembættið yrði aflagt þegar forseti Alþingis er kominn með svo merkilega stöðu í þessum stjórnarskrárdrögum.

Í 17. gr. er fjallað um frelsi fjölmiðla. Þar stendur:

„Tryggja skal með lögum frelsi vísinda, fræða og lista.“

Hvað gerist ef Alþingi setur ekki lög eða tryggir það ekki nægilega vel? Væri ekki miklu betra að það stæði í stjórnarskrá: Vísindi, fræði og listir skulu vera frjáls? Þá er það alveg á tæru, þá liggur það fyrir og dómstólar geta dæmt út frá því ef ekki verða sett lög eða lögin eru ekki í samræmi við það að vísindi, fræði og listir skuli vera frjáls.

Það að setja slíkt í lög gerir þetta að hálfgildings frelsi.