141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:37]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég áskil mér allan rétt til að ræða þetta mál sem þingmaður en ég hef ekki efasemdir í sjálfu sér um að það sé rétt að við ræðum það. (Gripið fram í.) Ég held hins vegar að það sé mjög eðlilegt að við förum mjög nákvæmlega yfir öll ákvæðin hér og ræðum þau. Ég held að það sé stóra málið.

Hvað varðar þjóðaratkvæðagreiðslurnar og álit Feneyjanefndarinnar hef ég skilið það svo að þessi drög verði líka send til umsagnar Feneyjanefndarinnar. Hvað varðar þjóðaratkvæðagreiðslur hefur nefndin birt þetta álit. Auðvitað er það umhugsunarefni og tengist því sem ég ræddi hér stuttlega áðan. Þegar lýðræðið var afnumið í Alsír með lýðræðislegri atkvæðagreiðslu — það var ákveðið á mjög lýðræðislegan hátt að afnema lýðræðið — getum við spurt hvernig það þjóni lýðræðinu. Þess vegna skiptir auðvitað máli að við vöndum til verka þegar við eflum beint lýðræði. Ég legg mikla áherslu á að við vöndum þess vegna vel þessi ákvæði þannig að við fáum sem besta niðurstöðu (Forseti hringir.) úr því og eflum um leið þátttöku almennings við stjórn landsins sem ég tel ekki vanþörf á.