141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:38]
Horfa

Birna Lárusdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skildi hæstv. ráðherra alls ekki þannig að hún efaðist um nauðsyn þess að ræða málið hér efnislega, þvert á móti, og ég var ánægð með margt af innleggi hennar. Ég þakka henni þetta og held að það sé mjög mikilvægt að við höfum til hliðsjónar það álit sem sérfræðingahópurinn hefur þó skilað af sér og mér þykir það hóflega sett fram og stóryrðalaust.

Mig langar að spyrja út í 24. gr. líkt og félagi minn áðan, hv. þm. Íris Róbertsdóttir, og spyrja um það atriði sem lýtur, með leyfi forseta, að rétti foreldra „til þess að tryggja að menntun barna þeirra sé í samræmi við trúar- og lífsskoðanir þeirra“. Sem gamall sveitarstjórnarmaður fer ég strax í stellingar og tel að það verði verulega kostnaðaraukandi ef við eigum að mæta þörfum allra í samræmi við þetta ákvæði. Ég bið um vangaveltur hæstv. ráðherra um þetta.