141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:03]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Í tveimur greinum, 65. og 66. gr., eru ákvæði um frumkvæði kjósenda og að 10% kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðis um lög sem Alþingi hefur samþykkt. Ég tel að það sé ágætt, ég tel ekki endilega þörf á að skipta um þing og boða til þingkosninga þó að almenningur sé ósáttur við einhverja tiltekna löggjöf sem kemur frá þinginu. (Gripið fram í.) Þó að það megi fara fram innan árs er það einfaldlega útfærsluatriði hvað menn vilja taka sér langan tíma í það. Ég held að það verði seint samþykkt ef þingið ætlar að þumbast við að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um lög, það verður ekki góður bragur á því. Alþingi getur sjálft fellt lögin úr gildi.

Samkvæmt 66. gr. geta tíu af hundraði lagt fram frumvarp til laga fyrir Alþingi, (Gripið fram í: Nei, 2%.) 10% geta lagt fram frumvarp sem Alþingi verður að taka afstöðu til. Alþingi verður að leggja fram gagntilboð eða vísa málinu í þjóðaratkvæði en aftur geta tveir af hundraði lagt fram tillögu til þingsályktunar eða frumvarp sem Alþingi má gera við hvað sem það vill. Ég hefði sjálfur persónulega viljað sjá þessi ákvæði sterkari vegna þess að Alþingi ákveður hvort þjóðaratkvæðagreiðslan í þessu tilviki skuli vera bindandi. Ég hefði viljað að það væri ekki á valdi Alþingis, heldur að hún væri bara bindandi í öllum tilvikum.

Það er með þessa stjórnarskrá og mig eins og alla aðra Íslendinga, held ég, að ég á sjálfur mína eigin stjórnarskrá sem ég hefði viljað leggja hér fram og fá samþykkta. Það hefði hv. þm. Pétur Blöndal örugglega viljað og allir þingmenn. (Gripið fram í.) Því miður, eða sem betur fer kannski, er það ekki hægt og mun aldrei ganga. Þessi stjórnarskrá með þessum ákvæðum er gríðarlegt framfaraskref og við munum búa í miklu betra samfélagi þegar hún verður loksins orðin að nýrri stjórnarskrá.