141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:25]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þótt svar mitt kunni að hafa verið skýrt ætla ég samt að segja aðeins meira og árétta ýmislegt. (KLM: Kannski að gera það óskýrara?) Vonandi verður það ekki óskýrara. En ég ætla að taka upp þráðinn þar sem ég endaði, mér finnst að ef við förum í breytingar á kosningaskipulaginu hvað þetta varðar þurfi þingmenn að vera kosnir sem fulltrúar allrar þjóðarinnar og tala um þjóðarhagsmuni. Þó að ég sé fæddur á höfuðborgarsvæðinu — ég segi reyndar stundum að ég sé hafi alist upp við hafið, ég er fæddur í Garðabæ — ber ég hag landsbyggðarinnar fyrir brjósti. Mér finnst að við eigum að efla þá tilfinningu í brjósti allra þingmanna. Við eigum að hugsa um landið sem heild. En ég vil árétta að þegar við breytum þessu verðum við líka að skoða breytingar á öðrum þáttum samfélagsins. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við eflum sveitarstjórnarstigið. Þá verða sveitarstjórnarfulltrúar mikilvægari (Forseti hringir.) og eins kosningar til sveitarstjórna.