141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:42]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Íris Róbertsdóttir kom inn á atriði sem er mér mjög hugleikið þegar kemur að umræðu um breytingar á stjórnarskrá og það er að stjórnarskrá sé auðskiljanleg, menn skilji hana nokkurn veginn allir á nokkurn veginn sama hátt. Að sama skapi verður það að vera framkvæmanlegt sem fram kemur í stjórnarskrá. Mér hefur fundist vanta svolítið upp á það í því frumvarpi sem er hér til umræðu að menn skilji það allir á sama hátt. Við höfum ótal dæmi um það. Jafnframt verður það sem mælt er fyrir um í stjórnarskránni að vera framkvæmanlegt. Stundum hljómar þessi tillaga meira eins og stefnuyfirlýsing stjórnmálaflokks. Það má vonandi laga og mér hefur heyrst að bæði formaður og varaformaður stjórnlagaráðs hafi tekið undir að það þurfi að fara yfir þessa hluti, ekki síður en lagatæknileg atriði svokölluð.

Ég ætlaði hins vegar að gera smáathugasemd við umræðu um jöfnun atkvæðisréttar sem svo er kölluð. Það gleymist oft í umræðunni að nú þegar er til staðar jafnt vægi atkvæða hvað flokka varðar, þ.e. þingmönnum er skipt nákvæmlega í samræmi við fylgi flokkanna þó að það þýði að kjósendur í einu kjördæmi hafi í mörgum tilvikum áhrif á fjölda þingmanna í öðru. Er það ekki að mati hv. þingmanns allt í lagi? Eitt af verkefnum þingmanna er að vera í samskiptum við sem flest fólk en landafræði er meðal þess sem hefur áhrif þar á. Það er tímafrekara og sumpart erfiðara að setja sig inn í og fylgjast með málum á mjög stóru landsvæði en á afmörkuðu landsvæði. Þar af leiðandi þurfa þingmenn að skipta með sér verkum þannig að einhver lágmarkshópur sinni þeim stóru landsvæðum sem landsbyggðarkjördæmin eru.