141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:49]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um greiningu hans á persónukjöri. Ég held að það sé hárrétt mat hjá þingmanninum að aukin krafa er um persónukjör, en það hringja um leið viðvörunarbjöllur. Við þurfum ekki annað en að horfa á undanfarin prófkjör. Það skiptir máli að vera þekkt andlit ef fólk ætlar að koma sér af stað í pólitík, sérstaklega ef það þarf að gera það algjörlega á eigin vegum. En ef viðkomandi getur kannski haft einhvern hóp með sér, lið sem hann getur tilheyrt, hljóta tækifærin að vera fleiri. Ég er ekki sammála því þegar sagt er að flokkarnir standi í vegi fyrir því að fólk geti komist að og það sé miklu betra að vera einn og kalla og hrópa. Það er örugglega betra að vera einn ef maður er sjónvarpsstjarna. Það er örugglega líka betra að vera einn í persónukjöri ef maður er til dæmis fyrrverandi frægur fótboltamaður eða einhver sem allir þekkja úr fjölmiðlum af einhverjum ástæðum. Þá er maður óbundinn, þarf ekki að setja sig undir neinn, getur sagt allt án ábyrgðar o.s.frv. Ég held samt að við getum gert ýmislegt varðandi persónukjör af því að það er krafa um aukið persónukjör, við getum ekki litið fram hjá því. En við þurfum samt að stíga mjög varlega til jarðar hvað allan þennan kafla varðar.

Mig langar í lokin að taka undir með hv. þingmanni, ég er algjörlega sammála því að við eigum að skipta með okkur verkum af því að það getur enginn verið sérfræðingur í öllu, það væri algjörlega vonlaust „keis“. (Gripið fram í.) Vonlaust tilfelli. Takk fyrir ábendinguna, hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson.

Hagsmunir höfuðborgarsvæðis og hagsmunir landsbyggðar fara að sjálfsögðu saman og við eigum að huga bæði að landsbyggð og höfuðborgarsvæði. En mér hefur kannski þótt sem landsbyggðarþingmanni oft halla á landsbyggðina og kannski finnst höfuðborgarþingmönnum hallað á höfuðborgina, ég veit það ekki.