141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[19:26]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Guðrúnu Erlingsdóttur fyrir ræðu hennar. Hún fór yfir ákveðnar greinar frumvarpsins, en mig langar að víkja aðeins að 57. gr. sem hefur með meðferð lagafrumvarpa að gera. Í henni segir, með leyfi forseta:

„Lagafrumvarp má ekki samþykkja fyrr en eftir minnst tvær umræður á Alþingi.“

Mig langar að fá álit hv. þingmanns á þessari grein og spyrja hvort hún sé sammála því að við eigum að gefa afslátt af umræðum á þingi og opna á þann möguleika að hægt sé að ræða frumvörp í tveimur umræðum. Eða kannski þýðir þetta eins og kom fram í umræðunum áðan að það má líka fara með mál upp í fjórar umræður, ég þekki það ekki. Í áliti sérfræðinefndarinnar segir að þetta sé varhugavert, hún segir að þetta sé ekki gott ef huga á að vandaðri lagasetningu. Mig langar að fá álit hv. þingmanns á þessari grein.