141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[19:35]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir ræðu sína. Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann út í er 5. gr. þessara draga þar sem réttindum eða réttara sagt því hvernig fólk sækir réttindi sín virðist vera beint í eins miklum mæli og hægt er í einkamál fyrir dómstólum. Við höfum vanist því að stjórnarskrárbrot eða slík dómsmál hafa að mestu leyti verið háð gegn ríkinu.

Mig langar að spyrja í framhaldi af fyrri spurningu minni hvort þingmönnum finnist eðlilegt að mannréttindakaflinn sé orðinn einhvers konar grunnur fyrir einkamálasaksókn eða hvort þetta stafi einfaldlega af því hvað er búið að hlaða miklu af þriðju kynslóðar réttindum inn í II. kafla, þ.e. mannréttindakaflann, og að það sem hefur verið hlaðið þar inn sé í raun flóttaleið þannig að einstaklingur geti ekki lengur gert kröfu á ríkið heldur verði hann að finna einhvern einkaaðila sem mótaðila í dómsmáli.