141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:12]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka gott andsvar. Alla vega miðað við réttarframkvæmd og þingrof núna samkvæmt stjórnarskránni er mjög ankannalegt að það sé komið fram með þessum hætti inn í frumvarpið. Eftir því sem ég hef skoðað þetta mál meir og meir — og þetta er nú búið að vera hangandi yfir okkur mjög lengi en er fyrst núna sem betur fer að komast til efnislegrar umræðu þannig að nú geta þingmenn farið að tala saman um efni frumvarpsins því að þetta hefur verið bundið inni í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hingað til — þá kemur í ljós, með fullri virðingu fyrir þeim sem sátu í stjórnlagaráði, að þetta plagg er skrifað undir miklum áhrifum til dæmis af haustdögum 2008, til dæmis af því að margir eyrnamerktir vinstri menn settust inn í stjórnlagaráð og það er vinstri stjórn í landinu, og ekki síður undir áhrifum frá ESB-umsókninni. Það eru mörg ákvæði í frumvarpinu sem beinlínis liðka til fyrir ESB-umsókninni.

Ég hef lýst frumvarpinu sem stefnuyfirlýsingu og eftir því sem ég les það oftar í gegn ber það meiri keim af stefnuyfirlýsingu stjórnmálaflokks en nokkurn tímann frumvarpi til stjórnarskipunarlaga. Því miður virðist það vera þannig.

Virðulegur forseti. Ég hef líka oft sagt að það var ekki stjórnarskrá Íslands sem felldi Ísland á sínum tíma. Við þurfum að skapa hér stöðugleika og sátt í samfélaginu. Sátt næst ekki í gegnum þetta frumvarp þar sem meginstoðum okkar góða samfélags er kollvarpað og kastað fyrir róða.

Því spyr ég hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur: Óttast hún ekki mjög að það verði mikil ásókn í dómstóla til þess að fá skorið úr réttindum sem felast í frumvarpinu, (Forseti hringir.) verði það að nýrri stjórnarskrá?