141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

heilsutengd þjónusta.

[10:41]
Horfa

Guðrún Erlingsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Nú hafa heildrænar meðferðir rutt sér til rúms samhliða hefðbundinni heilbrigðisþjónustu og var stigið stórt skref þegar lög nr. 34/2005, um græðara, og eftir því sem við á aðra græðara, voru sett. Markmið þeirra laga var að stuðla að gæðum heilsutengdrar þjónustu græðara og öryggi þeirra sem leita eftir slíkri þjónustu eða nýta sér hana. Einnig var markmiðið að koma á fót frjálsu skráningarkerfi fyrir græðara.

Græðari er, samkvæmt skilgreiningu í lögum, sá sem veitir heilsutengda þjónustu utan almennrar heilbrigðisþjónustu. Heilsutengd þjónusta græðara er skilgreind sem þjónusta sem tíðkast einkum utan hinnar almennu heilbrigðisþjónustu og byggist fremur á hefð og reynslu en gagnrýndum, vísindalegum niðurstöðum. Slík þjónusta felur í sér meðferð með það að markmiði að efla heilsu fólks, lina þjáningar, draga úr óþægindum og stuðla að heilun.

Í lögunum er þess sérstaklega getið að meðferð alvarlegra sjúkdóma skuli einungis veitt af löggiltum heilbrigðisstarfsmönnum nema sjúklingar óski eftir þjónustu græðara eftir samráð við lækni. Græðara er óheimilt að ráðleggja fólki að hætta lyfjameðferð eða annarri meðferð sem það hefur hafið hjá löggiltu heilbrigðisstarfsfólki.

Einnig er heimilt að koma til móts við óskir sjúklinga sem vilja nýta sér heilsutengda þjónustu græðara sé það í samræmi við stefnu stofnunarinnar. Ber þá að skrá það í sjúkraskrá sjúklings. Það er án nokkurs vafa hægt að spara í lyfjakostnaði ef hægt er að bjóða upp á fleiri valkosti í heilbrigðismálum. Það er ekkert jafnræði í því að þeim sem fara svokallaðar óhefðbundnar leiðir og spara ríkinu fleiri tugi ef ekki hundruð þúsunda á ári með því að nýta sér heildrænar meðferðir, sé gert að greiða allan kostnað sjálfir.

Mig langar því að beina fyrirspurn til hæstv. velferðarráðherra hvort hann telji grundvöll til að skoða hvort framkvæmanlegt sé að Sjúkratryggingar Íslands komi að því að niðurgreiða heildrænar meðferðir þeirra sem sækja þjónustu til skráðra græðara og þeirra sem lög nr. 34/2005 ná til.