141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[11:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður beindi þeirri spurningu til mín hvort það væri búið að fara nákvæmlega yfir hvaða lög þyrfti að setja eða hvaða lögum þyrfti að breyta. Nú er þetta mál að koma hingað í þinglega meðferð, sem kallað er, og við þurfum að skila því til nefnda. Ætlunin er, eins og útskýrt var hér í gær eða fyrradag, að senda málið til allra nefnda þingsins. Ég er viss um að þetta mun allt saman liggja fyrir þegar málið kemur aftur til 2. umr. Til þess erum við að taka það inn í þingið.

Við ákváðum það sameiginlega að fara með þetta mál út fyrir þingið og nú erum við komin með þetta frumvarp. Við höfum tekið inn breytingar sem sérfræðihópurinn lagði til. Þaðan komu líka ábendingar. Þær verða ræddar á milli 1. og 2. umr., það er sá háttur sem hafður er á með mál í þinginu og farið verður yfir allt mjög nákvæmlega.

Hins vegar er ljóst að við erum ekki nákvæmlega sammála um alla hluti hér. Vonandi getum við nálgast hvert annað eitthvað í hinni þinglegu meðferð. Það er von mín. Ég skil alveg hvað það þýðir að allir eigi að geta lifað með reisn, aðrir skilja það kannski ekki. Það er ekkert óskýrt í mínum huga. Það er mjög nákvæm greinargerð með þessu frumvarpi þannig að þegar það kemur til allra dómsmálanna sem (Forseti hringir.) menn spá hér fyrir um geta þeir sem um málin fjalla lesið sér til um þau, sem er ólíkt núgildandi stjórnarskrá sem er góð fyrir sinn hatt.