141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

staða þjóðarbúsins.

[13:55]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Það er sjálfstætt vandamál hversu langan tíma það hefur tekið að komast að því hver raunveruleg skuldastaða þjóðarbúsins er. Það er vægast sagt gagnrýni vert að Seðlabankinn hafi ítrekað þurft að endurskoða spár sínar og áætlanir um skuldir. Ég held að hæstv. forsætisráðherra þurfi að athuga það sérstaklega hvernig á því stendur að vafi sé um það hér svo hundruðum milljarða munar hvað íslenska þjóðarbúið skuldar. Það mál finnst mér vera þess eðlis að það hlýtur að vera á forgangslista hæstv. forsætisráðherra að fara yfir það hvernig á slíku getur staðið.

Hitt er það sem stendur upp á hæstv. forsætisráðherra að svara en hún kemur sér undan því. Hvernig hyggst hún í ríkisstjórn sinni borga þær skuldir sem á okkur hvíla? Allt tal um að hagvöxturinn sé mun meiri en í öðrum löndum skiptir auðvitað engu máli. (Gripið fram í: Nú?) Það skiptir auðvitað engu máli þegar litið er til þess að við getum ekki borgað þær skuldir sem á okkur hvíla. Það er ekki hægt að bera sig saman við aðrar þjóðir öðrum megin en ekki hinum megin. Menn verða að sjá það að til að geta greitt skuldirnar þarf að skapa gjaldeyri. Hvað er þessi ríkisstjórn að gera í því? Hvernig gengur ríkisstjórninni að efla gjaldeyrisskapandi verkefni? Hvernig tekur ríkisstjórnin á móti erlendum fjárfestingum? Hverjar eru horfurnar þar?

Að tala síðan um að 25% aukning í atvinnuvegafjárfestingu sé mikil, 25% aukning af engu, af því lægsta sem við höfum nokkurn tímann séð. Að segja að það sé dæmi um að atvinnuvegafjárfestingin sé komin á gott skrið er auðvitað ekki boðlegur málflutningur, hæstv. forsætisráðherra.

Ég held að löngu tímabært sé, virðulegi forseti, að menn fari að tala um stöðuna eins og hún er. Að sjálfsögðu getum við unnið okkur út úr þessum vanda en til þess þurfa menn að taka nauðsynlegar ákvarðanir, átta sig á því hver skuldastaðan er og fara að skapa gjaldeyri. Hvenær ætlar hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) að byrja á því?