141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

neytendavernd á fjármálamarkaði.

[11:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Eftirlit eða neytendavernd á fjármálamarkaði hefur verið í skötulíki hér á landi. Mjög lítil og hefur valdið heimilum landsins ómetanlegu tjóni.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra, sem er verkstjóri ríkisstjórnarinnar, hvar hún hyggist staðsetja neytendavernd á fjármálamarkaði, hjá Fjármálaeftirlitinu eða Neytendastofu, og hvort það sé ekki ástæða til að stórefla neytendavernd.

Tilefni þeirrar spurningar er að hér hafa verið ólögleg gengistryggð lán í sjö ár án þess að neinn segði neitt, markvisst voru seld stofnbréf og hlutabréf til sparisjóðseigenda án þess að neinn segði neitt. Á sparnaði eru neikvæðir vextir sem eru meira að segja skattaðir og enginn segir neitt. 55 þús. heimili töpuðu um 80 milljörðum kr. á hlutabréfaeign og 13 þús. heimili hafa tapað á raunlækkun húsnæðis, alls um 45 milljörðum kr., og enginn segir neitt.

Hér er notkun almennings á yfirdrætti, sem er skuld án gjalddaga, einsdæmi miðað við önnur lönd. Svo er í gangi hérna útgáfa lánsveða og ekki þarf að nefna hvað þau hafa valdið miklu tjóni.

Að síðustu verð ég að nefna smálánafyrirtækin sem hafa komið upp á yfirborðið og við stöndum einhvern veginn varnarlaus gegn. Vandinn er sá að neytendavernd á fjármálamarkaði er á tveimur stöðum: Hjá Fjármálaeftirlitinu og Neytendastofu. Það er ekki klár verkaskipting á milli og enginn virðist sinna því af fullum hug.

Ég skora á hæstv. forsætisráðherra að bæta úr neytendavernd á fjármálamarkaði.