141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[23:02]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Þegar maður er hérna í þingsalnum verður maður stundum afskaplega dapur að sjá framkomu sumra þingmanna eins og gerðist áðan hjá hv. þm. Lúðvíki Geirssyni. Ef hv. þingmaður telur eitthvert samkomulag hér í gildi og að einhverjir séu að brjóta það er hægt að biðja um orðið, koma svo í ræðustól og tjá sig um þau mál. Maður gerir þetta ekki með þessum hætti. Þetta er niðurlægjandi fyrir okkur öll og hv. þingmanni til mikillar minnkunar.

Þetta leiðir hugann að því að ég hef bent á að þeir sem starfa í því að reyna að endurskoða þingsköpin þurfa að færa forseta vald í hendur til að taka á háttsemi þingmanna sem ekki standa í ræðustól heldur eru með óspektir eða háttsemi utan ræðustóls sem ekki er við hæfi. Það eina sem forseti getur gert miðað við núverandi þingsköp er að fresta fundi.