141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[20:48]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann kom vel inn á hvaða verkefni eru fram undan, þ.e. auðvitað þau að skapa hér atvinnu, búa til hagvöxt og gefa fólkinu í landinu von.

Hv. þingmaður talaði um trúverðugleika og getu ríkisstjórnarinnar. Það þarf svo sem ekki að eyða mörgum orðum á það, það segir sig sjálft þegar hæstv. ríkisstjórn er í stríði við allar undirstöðuatvinnugreinar þjóðarinnar, hvort heldur sem það er sjávarútvegurinn, stóriðjan eða ferðaþjónustan. Ríkisstjórnin gat ekki séð ferðaþjónustuna í friði þannig að hér er allt á sömu bókina lært.

Hv. þingmaður kom töluvert inn á hvernig æskilegt væri að byggja upp atvinnulífið og fjárfesta í innviðum samfélagsins. Nú liggja fyrir þær upplýsingar frá Norðurþingi og sveitarstjórnarmönnum þar að til að hægt sé að gera þá samninga sem nauðsynlegir eru til að fara í atvinnuuppbyggingu á Bakka vantar 2,6 milljarða kr. inn í fjárlögin, sem er hlutur ríkisins í innviðauppbyggingunni, bæði í vegagerð og hafnargerð. Alltaf er verið að draga úr spám um aukinn hagvöxt. Gert er ráð fyrir því í hagvaxtarspánni að á seinni hluta ársins 2013 komi stóriðjuframkvæmdir inn. Ég spyr hv. þingmann hvort hann hafi ekki verulegar áhyggjur af því að það muni ekki ganga eftir og að það muni þurfa að skrúfa niður væntingarnar um hagvöxt vegna stefnu ríkisstjórnarinnar nema sú ríkisstjórn sem tekur við geti brett fljótt upp ermar og brugðist við þeim vanda.

Eins hafa menn miklar áhyggjur af stöðunni á erlendum mörkuðum okkar, sérstaklega gagnvart sjávarútveginum vegna þess að þar eru mörg óveðursský á lofti. Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að áætlanir muni ekki ganga eftir og að enn eina ferðina verði að draga úr væntingum þegar hagvaxtarspáin verður endurskoðuð.