141. löggjafarþing — 45. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[00:10]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Ég fjallaði aðeins um það áðan í upphafi fyrstu ræðu minnar um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar hvernig stjórnarliðar hefðu reynt að dreifa því strax frá fyrsta degi að stjórnarandstaða væri í málþófi, strax frá fyrsta degi aðalumræðu um sjálf fjárlögin, 2. umr. Við höfum tekið eftir því í dag að stjórnarliðar hafa ekki séð ástæðu til að taka mikinn þátt í umræðunni. Maður veltir því fyrir sér þegar umræða um fjárlög er látin standa fram yfir miðnætti hvort til nokkurs sé að reyna að benda ríkisstjórninni á þá augljósu galla sem eru á fjárlögunum. Er ætlunin að láta þingmenn tala til málamynda? Er virðingin fyrir þinginu ekki meiri en svo að menn ætli bara að láta þingmenn tala inn í nóttina til að afgreiða þetta frá, án þess að spá nokkuð í það hvað þeir hafa fram að færa, sama hversu alvarlegar eða mikilvægar ábendingarnar eru?

Það er verulegt áhyggjuefni ef ríkisstjórnin nálgast þingið á þann hátt, í fyrsta lagi með því að reyna að stöðva umræðuna eða koma í veg fyrir hana, í öðru lagi að hræða menn frá því að taka þátt í umræðu um fjárlögin með því að hrópa málþóf þegar aðeins lítill hluti þingmanna hefur tekið til máls og í þriðja lagi að beita þeirri aðferð að sniðganga umræðuna, taka ekki þátt í henni og láta hana helst fara fram á næturnar. Þetta sýnir að áhuginn á samráði er enginn þrátt fyrir allar hástemmdu yfirlýsingarnar um mikilvægi samráðs og faglegra vinnubragða. Þegar til kastanna kemur er áhuginn á slíku enginn. Það hlýtur að vera okkur töluvert áhyggjuefni.

Hvað getur stjórnarandstaða eða aðrir þingmenn sem hafa áhyggjur af vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar gert við þessar aðstæður? Líklega ekki annað en að reyna áfram að benda á þá ágalla sem þarfnast úrbóta jafnvel þótt það sé um miðja nótt. Þá er að minnsta kosti hægt að segja að menn hafi reynt að benda á hvernig þessi mál mættu betur fara. Það er það sem ég ætla að gera hér, virðulegi forseti, að reyna að benda á atriði sem betur mega fara í fjárlagafrumvarpinu.

Ég kom aðeins inn á það í fyrri ræðu að þegar væri ljóst að ýmsir fyrirsjáanlegir kostnaðarliðir mundu bætast við á árinu 2013 án þess að gert væri ráð fyrir þeim í fjárlögum. Ég átti þó eftir að nefna sérstaklega einn mjög stóran lið, sem er reyndar ekki alveg ljóst hvort muni bætast við á árinu 2013 en það er a.m.k. stefna stjórnvalda að svo verði. Það er hið gríðarstóra verkefni bygging nýs Landspítala, hátæknisjúkrahúss eins og það er kallað.

Alþingi er í raun í algerri óvissu um hvernig þessu verkefni muni vinda fram á næsta ári og hversu mikill kostnaður muni falla til. Það hlýtur að vera óviðunandi þegar árinu er að ljúka og verið er að ganga frá fjárlögum að slík óvissa sé um svo stórt verkefni. En þetta er ekki eina dæmið. Það er raunar orðin lenska að líta fram hjá mjög stórum útgjaldaliðum þegar gengið er frá fjárlögum, sem þýðir að þau verða ekki eins marktæk eins og nauðsynlegt er. Það hlýtur að vera okkur þingmönnum áhyggjuefni, en eins og ég nefndi í upphafi virðist þessi umræða ekki til þess ætluð að bæta úr heldur þvert á móti vera haldin til málamynda af hálfu stjórnarliðsins.

Af því að ég kem inn á heilbrigðismálin og hin óljósu áform um Landspítala – háskólasjúkrahús er ekki annað hægt en nefna aðeins það ástand sem er ríkjandi innan Landspítalans. Þá er ég ekki hvað síst að tala um stöðu hjúkrunarfræðinga en þeim hefur verið haldið í algerri óvissu um kjör sín um mjög langt skeið þrátt fyrir að kveðið hafi verið á um það í kjarasamningum á sínum tíma að stofnanasamningar skyldu gerðir í framhaldinu. Þau mál eru í algerri óvissu. Það er því ekki nóg með að framhaldið, fyrirhuguð uppbygging og byggingarframkvæmdir, sé í óvissu heldur er núverandi rekstur spítalans og launagreiðslur til þeirra sem þar starfa verulegri óvissu háð og þar með hvort til staðar verði starfsfólk á næsta ári til að halda uppi þeirri þjónustu sem er nauðsynleg á Landspítalanum.

Það kom fram í fréttum í dag að á þriðja hundrað hjúkrunarfræðinga væru búnir að segja upp störfum, samkvæmt upplýsingum frá talsmanni hjúkrunarfræðinga. Við höfum verið að missa fjöldann allan af hjúkrunarfræðingum úr landi eða til annarra starfa hér innan lands og er ástandið orðið mjög alvarlegt. Raunar sjá menn ekki fyrir endann á því vegna þess að það eru ekki einu sinni nógu margir hjúkrunarfræðingar útskrifaðir til að viðhalda þeim fjölda sem á þarf að halda og mun þurfa til framtíðar. Þetta hlýtur því að vera mál sem kallar á úrlausn strax og hefði þurft að gera ráð fyrir í tengslum við fjárlögin og hvernig menn áforma að Landspítalinn þróist næstu árin. Staðan á tækjakosti Landspítalans er auðvitað vel þekkt líka. Þar komu reyndar til dálitlar fjárveitingar en ekkert í líkingu við það sem þarf til að uppfæra tækjakostinn svo vel sé.

Það að viðhalda slíkri óvissu um grunnþjónustu eins og heilbrigðisþjónustuna er afleitt, en því miður er þetta ekki eina dæmið. Þetta er eiginlega regla frekar en undantekning. Nokkrir hafa nefnt það í þessari umræðu að staða löggæslunnar sé orðin slík að þar megi tala um hættuástand. Það kom reyndar fram í sérstakri skýrslu sem unnin var um stöðu löggæslu á Íslandi að niðurskurðurinn er kominn það langt að það er farið að skapa hættu, svo ekki sé minnst á þá stöðu sem uppi er víða á landsbyggðinni þar sem niðurskurðurinn hefur verið slíkur að ekki er hægt að tala um að íbúar víða á landinu búi við löggæslu sem neinu nemur í nærumhverfi sínu. Þegar óvissan er slík og niðurskurðurinn í grunnþjónustunni jafnmikill og raun ber vitni er dálítið sérkennilegt að á sama tíma sé viðhöfð forgangsröðun sem felur í sér mikla áherslu á hin ýmsu gæluverkefni ríkisstjórnarinnar.

Svo er það öll umræðan um stöðu ríkissjóðs og meintan árangur ríkisstjórnarinnar í rekstri ríkisins. Ég fór aðeins yfir það áðan að íslenska ríkið er enn að safna skuldum. Það er ekki búið að snúa þróuninni við. Enn er að bætast við skuldirnar og vaxtagreiðslurnar hafa vaxið gífurlega. Á móti segja stjórnvöld að hér hafi náðst meiri hagvöxtur en í löndunum í kringum okkur, kannski sérstaklega meiri hagvöxtur en á evrusvæðinu. Þetta eru sömu stjórnvöld sem tala hvað mest fyrir því að Ísland þurfi að ganga inn í þetta evrusvæði sem allra fyrst.

Líka er bent á að atvinnuleysi sé töluvert minna hér en á evrusvæðinu og bent á það af sama fólki og vill koma Íslandi sem fyrst inn á evrusvæðið. En atvinnuleysið er reyndar ekki alveg rétt mælt vegna þess að fólk hefur farið unnvörpum til útlanda til starfa eða verið endurskilgreint, er ekki lengur skilgreint sem atvinnulaust. Engu að síður eru mælikvarðarnir þannig að atvinnuleysi mælist minna en áður og hagvöxtur mælist meiri en áður. Þá er ekki hægt annað en leiða hugann að þeim málflutningi sem viðhafður var í þessum sal og í fjölmiðlum í tengslum við tilraunir ríkisstjórnarinnar til að fá Icesave-samningana samþykkta. Þá var því haldið blákalt fram að ef menn létu ekki undan hótunum um að fallast á þá samninga yrði hér efnahagslegur kjarnorkuvetur. Það yrði enginn hagvöxtur, enginn mundi lána Íslendingum peninga. Ríkið er reyndar búið að taka samtals 2 milljarða dollara að láni á markaði, nokkuð sem mörg Evrópuríki eru ekki fær um. Atvinnuleysi færi líka upp úr öllu valdi. Þannig að ekkert af þessu hefur gengið eftir. Ekkert af spám ríkisstjórnarinnar sem hún lagði fram í upphafi þegar hún tók við völdum í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hefur gengið eftir, ekkert af áætlunum ríkisstjórnarinnar hefur staðist. Í sumum tilvikum sem betur fer, í öðrum tilvikum því miður.

Auk þess rakti ég áðan að fjárlögin hafa engan veginn staðist þegar yfir þau hefur verið farið einu eða tveimur árum seinna. Það að menn skuli ekki bregðast við þessu með því að breyta vinnubrögðunum, vinna þetta betur, setja inn a.m.k. fyrirséða liði sem er alveg ljóst að munu falla til á næsta ári og verða mjög dýrir, bendir því miður til að markmiðið með þessari vinnu sé fyrst og fremst að sýnast, draga upp einhverja mynd í aðdraganda kosninga frekar en gera raunhæfa áætlun.

Stjórnarliðar hafa sumir hverjir kvartað undan því að stjórnarandstaðan komi ekki með eigin tillögur að fjárlögum. Þá getur maður ekki annað en velt fyrir sér þeim viðbrögðum sem stjórnarandstöðuþingmenn hafa fengið við tillögum sínum á undanförnum árum, sama hversu góðar og vel útfærðar þær hafa verið. Skyldi nokkrum manni detta í hug að ef þeir kæmu með eigin tillögur að fjárlögum mundi ríkisstjórnin taka þeim fegins hendi eða svo mikið sem líta á þær? Nei, því miður sýnir reynslan okkur annað. Þess vegna höfum við talið skynsamlegast að einbeita okkur að því að reyna að lágmarka skaðann, reyna a.m.k. að benda á ágallana svo hægt sé að gera úrbætur, benda á hvernig megi vinna hlutina betur, enda er ljóst að ef við kæmum með eigin fjárlög yrði lítið á þau hlustað. Því miður virðist ekki einu sinni duga til að reyna að benda á gallana og fá þá lagaða vegna þess að hér erum við látin ræða fjárlög ríkisins langt fram á nótt, eftir miðnætti, til að klára umræðuna bara svo hún sé frá. Það er enginn raunverulegur áhugi á endurbótum.

En þó að skammast sé yfir því að stjórnarandstaðan leggi ekki fram eigin fjárlög er sú gagnrýni kannski ekki alveg sanngjörn hvað Sjálfstæðisflokkinn varðar, vegna þess að ungir sjálfstæðismenn (Gripið fram í.) hafa lagt fram eigin tillögur að fjárlögum. Það er kannski þess virði að rýna aðeins í þær. Vegna þess að ég á ekki von á því að liðsmenn stjórnarliðsins komi hingað til að ræða við mig um þau fjárlög sem ríkisstjórnin hefur lagt fram vil ég hvetja þingmenn Sjálfstæðisflokksins til að ræða þær tillögur sem sjálfstæðismenn hafa lagt fram um fjárlög. Þær fela í sér að ríkið hætti öllum greiðslum til hinnar fjölbreytilegustu starfsemi og leggi af mörg af þeim verkefnum sem að mínu mati teljast meðal mikilvægustu verkefna ríkisins, en að mati sjálfstæðismanna má leggja af með öllu. Meðal þeirra verkefna sem sjálfstæðismenn vilja strax á næsta ári, frá og með áramótum, leggja af ...

(Forseti (RR): Hv. þingmaður fari rétt með. Það eru ungir sjálfstæðismenn.)

Þeir eru sjálfstæðismenn líka, virðulegur forseti. Meðal þess sem ungir sjálfstæðismenn vilja leggja af strax frá áramótum er Raunvísindastofnun Háskóla Íslands, Rannsóknasjóður, nám á framhaldsstigi vegna aðstæðna á vinnumarkaði, LÍN eða Lánasjóður íslenskra námsmanna eins og hann leggur sig, Þjóðminjasafn Íslands, Listasafn Íslands, Ríkisútvarpið, Þjóðleikhúsið, Sinfóníuhljómsveit Íslands, (Gripið fram í.) framlög til lista, ýmissa fræðistarfa, æskulýðsmála, ýmissa íþróttamála, þróunarmála og alþjóðlegrar hjálparstarfsemi eins og hún leggur sig, skógræktar, Hafrannsóknastofnunar, leggja af öll framlög til landbúnaðar, virðulegur forseti, öll framlög til íslensks landbúnaðar. (Gripið fram í.)

Nú tek ég bara nokkur dæmi. Mannréttindamál. Slysavarnaskóli sjómanna skal aflagður með öllu, rekstur Vegagerðarinnar, framlög til innanlandsflugs, Siglingastofnun, hafnarframkvæmdir, Flugmálastjórn, (Gripið fram í.) flugvellir og flugleiðsöguþjónusta — það verður þá væntanlega bara lent á einhverjum túnum eða sjálfboðaliðar geta séð um það að viðhalda flugvöllum. Sóknargjöld, sem sett eru samkvæmt sérstökum samningi kirkjunnar við ríkisvaldið og það getur ekki afnumið einhliða, en það vilja ungir sjálfstæðismenn gera og væntanlega einhverjir aðrir sjálfstæðismenn líka. Ég vil gjarnan heyra álit eldri sjálfstæðismanna á þessum tillögum.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga, landlæknir Vinnumálastofnun, sérframlag til fæðingarorlofs, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, styrkir til nýsköpunarfyrirtækja, niðurgreiðsla á húshitun. Það væri áhugavert að heyra álit hv. þingmanna Tryggva Þórs Herbertssonar og Ásbjörns Óttarssonar á þessum liðum. Jöfnun kostnaðar vegna dreifingar raforku, ýmis orkumál, byggðaáætlun, Byggðastofnun, ýmis ferðamál, Samkeppniseftirlitið — hver þarf það? Landgræðsla ríkisins, Skógrækt ríkisins, Veðurstofa Íslands — hún hefur kannski spáð eitthvað öðruvísi en ungum sjálfstæðismönnum líkar.

Þetta eru tillögur sjálfstæðismanna, í þessu tilviki ungra sjálfstæðismanna, að fjárlögum. Vegna þess að stjórnarliðar fást ekki til að ræða tillögur sínar væri mjög fróðlegt að heyra eldri sjálfstæðismenn sem hér eru segja álit sitt á þessum tillögum flokksmanna sinna. Er þetta grunnur til að byggja á? Eigum við að vinna út frá þessu þegar við gagnrýnum fjárlög ríkisstjórnarinnar eða vilja menn fara einhverjar aðrar leiðir?