141. löggjafarþing — 45. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[00:48]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr um það sem kemur fram í nefndaráliti okkar, sem eru varnaðarorð Seðlabankans. Við tókum inn í nefndarálit okkar varnaðarorð frá þremur spáaðilum, ef ég má orða það með þeim hætti.

Ég held að í raun og veru sé mikilvægt á hverjum tíma, og að við höfum lært það í gegnum tíðina, að efnahagsstefna stjórnvalda og sá þáttur sem snýr að Seðlabankanum verði að harmónera saman, það gefur augaleið. Niðurstaða Seðlabankans er sú að setja þurfi fjármálareglur. Það er auðvitað niðurstaðan þegar maður les í gegnum þetta og þeir hjá Seðlabankanum enda á því að segja: Það er mikilvægt á hverjum tíma að menn hafi fjármálareglur, sama og Alþingi hefur sett fyrir sveitarfélögin. Ég tel mjög mikilvægt að við gerum það. Það skiptir engu máli hvaða ríkisstjórn er við völd, við eigum að setja okkur fjármálareglur til að raða inn í rammann. Við getum ekki og megum ekki ýta alltaf vandanum á undan okkur.

Það gefur augaleið að þegar menn selja hlut í fyrirtækjum eða taka út úr þeim arðgreiðslur þá verða þeir að greiða niður skuldir. Stærsta vandamálið er skuldsetning ríkissjóðs sem hefur auðvitað áhrif á hagvöxtinn og hvernig tekst til við hann, skuldir ríkissjóðs, fyrirtækja og heimila. Það er gríðarlega mikilvægt að greiða niður skuldir.

Varðandi fjárfestingaráætlunina, þá fór ég yfir það í einni ræðu að sumt í henni er alger della og vitleysa. Sú fjárfestingaráætlun sem þyrfti að fara í til að styðja við hagvöxtinn væri auðvitað uppbygging á Bakka, ef menn hefðu væntingar um að fara í þá uppbyggingu, en engin merki eru um slíkt í fjárlagafrumvarpinu heldur á að byggja hús íslenskra fræða. Haldið þið að það geri eitthvað fyrir hagvöxtinn? Það er eintómt rugl.