141. löggjafarþing — 45. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[01:04]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fékk ekki svar við spurningu minni, þ.e. hvað finnst hv. þingmanni um þá stöðu sem við erum í hér í dag eftir að tillögur ríkisstjórnarinnar komu fram á þeim tíma sem áætlað var í starfsáætlun þingsins, á réttum tíma? Fjárlaganefnd fékk lengri tíma en áður til að fjalla um tillögur ríkisstjórnarinnar, hafa þær innan sinna veggja áður en til 2. umr. kom.

Þingið er með málið. Þingið er nú að lengja 2. umr., umfram það sem þingsköp kveða á um að eigi að vera, stytta tímann milli 2. og 3. umr. og lengja í því að fjárlög taki gildi miðað við þá fyrirætlan sem ég held við öll höfum haft einlægan ásetning um að ná fram, meðal annars með þingsköpum.

Þingið er með málið. Við eigum ekki alltaf að vera að kalla eftir ráðherrum. Við erum með málið, þingmenn, fjárlaganefnd, þingið, og við eigum að hætta að kalla stöðugt eftir ráðherrum hingað til umfjöllunar. (Forseti hringir.) Hvað finnst hv. þingmanni um þá stöðu sem við erum akkúrat í núna að vera að fara í fjórða sólarhringinn með 2. umr.?