141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

störf þingsins.

[13:31]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs undir þessum lið, um störf þingsins. Ég er ekki tíður gestur í umræðum um þau mál en tel óhjákvæmilegt að ræða hér þá óvenjulegu og í raun fáheyrðu stöðu sem er uppi í störfum þingsins hvað varðar 2. umr. um fjárlagafrumvarpið. Sú umræða hefur nú staðið í þrjá heila daga, tæpar 30 klukkustundir er mér sagt, og ég hygg að það sé án fordæma. Þetta er þeim mun undarlegra sem þetta fjárlagafrumvarp er það langbesta og auðveldasta sem Alþingi hefur haft á sínum borðum í fimm ár. (Gripið fram í.) Það stefnir í því sem næst hallalaus fjárlög, halla upp á um það bil 0,2% af vergri landsframleiðslu, enda eru Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn að því er virðist ekki ósáttari við málið en svo að þeir flytja engar breytingartillögur og hafa þar af leiðandi ekki þurft langan ræðutíma í að tala fyrir þeim, breytingartillögum sem engar eru.

Það er án fordæma, leyfi ég mér að fullyrða, að fjárlagafrumvarp sé með þessum hætti tekið í gíslingu með málþófi. Það er enn verra ef það er gert til að trufla störf þingsins og tefja fyrir öðrum óskyldum málum. Þá eru málsþófsvinnubrögðin komin inn á nýjar lendur sem ég hygg að hafi aldrei sést áður (Gripið fram í: Já.) ef fjárlög og slík mál sem stjórnarskrárbundið og lögbundið þarf að ljúka afgreiðslu á fyrir jól eru notuð til að ná öðrum markmiðum fram.

Ég hvet stjórnarandstöðuna til að sjá að sér. Það er nóg komið og það er um lítið að tala varðandi skipulag á störfum þingsins fyrr en stjórnarandstaðan lætur af þessum leik. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)