141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Í fyrrasumar samþykkti Alþingi ný þingskapalög þar sem meðal annars er kveðið á um framlagningu fjárlagafrumvarps sem lagt er fram núna í fyrsta skipti um það bil þrem vikum fyrr en áður. Það var gert til að fjárlaganefnd og aðrar nefndir þingsins sem vildu fjalla um fjárlagafrumvarpið hefðu til þess betri og rýmri tíma og skiluðu málinu betur frá sér til þings.

Fjárlaganefnd sjálf hefur komið sér upp öðru vinnulagi en áður hefur verið og þróað vinnulag í átt til betri vegar á undanförnum þrem árum. Um það hefur verið sameiginlegur vilji allra fjárlaganefndarmanna. Rýmri tími hefur gefist núna en áður til að fjalla um fjárlagafrumvarpið og rýmri tími hefur gefist núna en áður fyrr til að fjalla um breytingartillögur sem lagðar hafa verið fram við fjárlagafrumvarpið, m.a. tillögur frá ríkisstjórninni.

Til að auka þann tíma enn frekar var gefinn vikufrestur frá áætlaðri starfsáætlun fyrir 2. umr. sem nú stendur yfir þannig að tíminn er mun lengri en nokkurn tíma hefur verið áður, í það minnsta síðan ég kom hingað inn. Samt erum við stödd hér með lög um þingsköp sem voru samþykkt í vor um að það ætti að afgreiða 3. umr. fjárlaga í fyrstu viku desembermánaðar. Allur umbótavilji þingsins sem felst í þingskapalögunum og allur umbótavilji sem fjárlaganefnd hefur sjálf staðið einhuga fyrir, algerlega samstiga, er að engu hafður í því sem hér er verið að gera í dag.

Til að bíta höfuðið af skömminni kemur hv. þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins hingað upp og hótar jafnvel að vera í málþófi fram að áramótum (Gripið fram í: Ha?) af því að það skipti ekki máli, það sé hægt að samþykkja fjárlög á síðasta degi ársins vegna þess að þá er hægt að borga út laun eftir áramót. (Gripið fram í.)

Þetta eru skilaboðin (Gripið fram í.) sem þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) færir þinginu núna. Þetta er ekki síðasti dagur málþófsins, þetta er ekki næstsíðasti dagurinn, þetta er aðeins byrjunin, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) og verði þeim þá bara að góðu.