141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[19:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég hef nokkrum sinnum í umræðunni rætt um áhættu ríkissjóðs, áhættur sem þegar hafa fallið til og aðrar sem eru yfirvofandi og gætu fallið til. Ég hef nefnt til dæmis Landsvirkjun sem er sennilega 500 milljarða áhætta en vonandi kemur ekkert fyrir. Í Orkuveitu Reykjavíkur átti ekki heldur að vera nein áhætta en hún kom heldur betur til vegna þess að menn gerðu mistök í því að taka lán í annarri mynt en þeir höfðu tekjur í sem er grundvallaratriði í öllum rekstri.

Svo eru miklar skuldbindingar hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, 400 milljarðar hjá B-deildinni, 57 milljarðar hjá A-deildinni sem átti að verða skuldlaus og ég ætla ekki að fara nánar út í, ég er búinn að því. Síðan er það hjá Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga, þar eru líka rúmlega 50 milljarðar. Allt ógreitt og falið og ekkert horfst í augu við það.

Svo er náttúrlega Íbúðalánasjóður. Hann er margbúið að nefna í umræðunni og ég ætla ekki að tefja við það en þar er búið að setja 33 milljarða. Gert er ráð fyrir, maður heyrir það á göngunum, að setja eigi inn 13 milljarða. Sú breytingartillaga er ekki komin fram enn þá en sumir segja að þurfi 20, aðrir 40, og ekkert er tekið á því. Auðvitað á að loka þeim sjóði, finnst mér. Það sem þarf að gera er að taka á vandanum. Menn áttu að gera það strax og vextir fóru að lækka, fóru niður fyrir 3% í ársbyrjun 2011. Þá vissu menn að eitthvað væri að breytast og auðvitað er hin mikla snjóhengja ástæðan fyrir því öllu saman.

En ég verð að komast yfir tímann. Þess vegna held ég að sé mjög mikilvægt, og það á allt hugrakkt fólk á að gera, að horfast í augu við vandann og segja: Vandinn er þarna. Ég ætla ekki að hugsa hann burtu, sópa honum undir teppi eða eitthvað svoleiðis.

Varðandi LSR. Þar eru 57 milljarðar. Sú skuldbinding hefur vaxið um heila 10 milljarða — 10 milljarða — á einu ári. Hún er ekkert að fara neitt. Hún bara vex og vex. Það sem menn eiga að gera er að hækka iðgjald í A-deild LSR úr 15,5 upp í 19,5. Það er nauðsynlegt. Við það aukast reyndar gjöld ríkissjóðs um 4 milljarða á ári. Það er bara þannig. Þá er alla vega búið að horfast í augu við vandann og sýna hver hann er.

Það ber dálítið mikið, eins og hér hefur verið bent á, keim af því sem þeir gerðu í Grikklandi, að fela halla ríkissjóðs, að hreinlega falsa hann. Þess vegna eru fjárlögin ekki góð fjárlög. Þótt þau séu kannski bestu fjárlög ríkisstjórnarinnar eru þau ekki góð. Hún hefur kannski ekki komið með betri fjárlög hingað til og ef til vill eru þau bestu fjárlög hæstv. ríkisstjórnar en það er ekki þar með sagt að þau séu góð, langt því frá. Í þeim eru stór göt og risaupphæðir sem ekki er horfst í augu við.

Svo eru menn að gera dálítið undarlega hluti. Þegar menn horfa á ríkisreikning fyrir ákveðin ár, fyrir árin 2010 og 2011, þá segir hann eitthvað allt annað heldur en lokafjárlög fyrir sama ár og munar 40–50 milljörðum hvort ár. Ég hef beðið um upplýsingar um það og fengið þær en ætlað að biðja um frekari upplýsingar því ég er ekki sáttur við þetta. Það er verið að brjóta stjórnarskrá. Það eru einhverjir að greiða peninga út úr ríkissjóði sem ekki er heimild fyrir í fjáraukalögum vegna þess að í fjáraukalögum á að standa allt það sem má greiða út. Það má ekki greiða krónu umfram það. Samt er ríkisreikningur með 20–30 milljarða meiri útgjöld en fjáraukalög fyrir viðkomandi ár.

Það er eitthvað mikið að þarna. Það er einmitt það sem ég ætlaði að nota ræðu mína í að ræða, fjármálalegur agi, að menn fari að reglum. Ég velti því endalaust fyrir mér og ég ætla ekkert að hætta því. Hvað varð um vandamál Sparisjóðs Keflavíkur? Það var talað um að þar vanti 20 milljarða. Hvað varð um þann vanda? Hvert fór hann? Hann er örugglega ekki horfinn. Það er búið að fela hann. Það er búið að fela hann einhvers staðar og ég ætla ekki að linna látum fyrr en ég fæ að vita hvað varð um þennan vanda.

Þegar menn gera svona æfingar, láta 20 milljarða hverfa með einhverjum hætti, má heldur ekki taka lán til þess því að þegar þeir taka lán er skylda að geta þess í fjárlögum eða fjáraukalögum. Samkvæmt þeirri sömu stjórnarskrá sem hv. þingmenn hafa svarið eið að.

Ég hef áhuga á því að vita hvað varð um Sparisjóð Keflavíkur. Hvað varð um fjölda mörg önnur atriði þar sem menn voru með æfingar? Saga Capital og fleira, bara nefnið það. Allt æfingar sem menn hafa gert þar sem er verið að sópa undir teppið, ekki einhverjum litlum upphæðum, herra forseti. Það er ekki framlag til spítala eða lækningatæki, 200 milljónir eða eitthvað svoleiðis, eitthvert smotterí. Þetta eru tugir milljarða, tugir þúsunda milljóna.

Ég vil að menn fari að skoða þær stóru tölur miklu betur og séu ekki alltaf að naggast í einhverjum litlum tölum, það vantar verðlagsuppbætur á brunavarnir á Suðurnesjum eða eitthvað svoleiðis, 10 milljónir. Þegar kemur að stóru tölunum þar sem er verið að tala um 20–30 milljarða, þar eru götin í fjárlögunum.

Eftir höfðinu dansa limirnir. Ef ekki er agi hjá ríkinu, ef það lætur svona stórar tölur hverfa, hvað skyldu sveitarfélögin hugsa sem hafa mörg hver reist sér hurðarás um öxl, mjög ógætilega? Þar ættu borgararnir náttúrlega að horfa miklu nánar á hvernig farið er með útsvarstekjurnar. Það smitar niður þetta agaleysi hjá ríkinu. Þess vegna finnst mér frumvarpið sem við ræðum hérna ekki góð fjárlög. Það eru ekki góð fjárlög fyrir íslenska ríkið að hafa svona opnar heimildir inni í þeim eða gleyma vissum hlutum eins og ég nefndi, 47 milljörðum hjá A-deild LSR. A-deildin átti að vera sjálfbær. Það stendur meira að segja í lögunum að stjórn sjóðsins, segir hreint út, á að hækka iðgjald ríkisins ef halli er á. Stjórnin gerði það ekki. Í fjölda ára gerði stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins ekki það sem lögin buðu. Nú stöndum við uppi með 57 milljarða. Hver skyldi bera ábyrgð á því? Mér skilst að það séu fulltrúar fjármálaráðuneytisins sem hafi ekki fylgt þessari lagaskyldu í stjórninni. Svo var lögunum breytt. Það er alltaf verið að sleppa því að horfast í augu við vandann. Ég kalla það bara hugleysi.

Ég er í nefnd sem fjallar um almannatryggingar. Þar var gerð mjög mikil einföldun, það var virkilega gott, en menn gátu heldur ekki horfst í augu við að hugsanlega þyrfti að skerða einhverja hópa. Nei, það skyldi enginn tapa. Þegar framfærsluuppbótin, sem sett var á algjörlega umræðulaust og hugsunarlaust og í rauninni eyðilagði lífeyrissjóðina, ég hef nefnt það áður, er sett inn í kerfið veldur hún gífurlegum kostnaði en bara ekki í ár. Hún gerir það árið 2014, 2015 og 2016. Bíddu við, þá er kominn nýr ráðherra. Það er akkúrat vandamálið, vandanum er sópað undir teppið. Ekki horfast í augu við hann. (Gripið fram í: Rétt.) Láta vandann hverfa, eins og galdramaður.

Svona er frumvarpið. Það er reyndar ekki búið að afgreiða það samkomulag út úr fjármálaráðuneytinu af því það er hreinlega of dýrt.

Síðan er fæðingarorlofið. Það er nákvæmlega sama. Það er verið að lofa einhverju sem á að taka gildi eftir einhvern langan tíma. Fjárfestingaráætlunin, menn komu hérna og hækkuðu gjöld um 5,6 milljarða. Á hverju skyldi það nú byggja, herra forseti? Ég skal upplýsa þingheim um það: Það byggir á veiðigjaldinu. Veiðigjaldinu sem lagt er á útgerð samkvæmt eldgömlum tölum. Þær eru núna orðnar eins eða tveggja ára. Allar markaðsaðstæður gætu breyst. Það horfir ekki vel í útflutningi. Það getur vel verið að útgerðin geti ekkert borgað þetta gjald af því forsendur hafa breyst. Hvað gera menn þá? Búið að eyða peningunum. Aha, næsti fjármálaráðherra. Það er akkúrat vandamálið. Allur vandi er fluttur inn í framtíðina. Það er framtíðin sem á að borga og menn horfast ekki í augu við vandamálið. Þá getur vel verið að þetta séu bestu fjárlög sem þessi ríkisstjórn hefur flutt en þau sem hún hefur flutt hingað til hafa ekki verið góð ef þessi eru þau bestu.