141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[20:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að tefja þessa umræðu. Það vill svo til að í 13. gr. laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins — nr. 1/1997, sem frægt er orðið, ég flutti við þau breytingartillögur og allt slíkt — stendur nú í lögunum í 2. málslið 4. mgr.:

„Leiði tryggingafræðileg athugun í ljós að iðgjald sjóðfélaga til sjóðsins ásamt mótframlagi launagreiðenda dugi ekki til greiðslu á skuldbindingum sjóðsins, sbr. þó 39. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, skal stjórn sjóðsins hækka framlag launagreiðenda í samræmi við niðurstöðu athugunarinnar.“

Þetta ákvæði um 39. gr. — ég hef verið að leita að því síðustu mínúturnar, ég hef ekki fundið út hvernig þetta var áður, ég held að það hafi bæst við. Það er verið að vísa í það að hjá öðrum sjóðum megi fara 15% umfram í skuldbindingum tímabundið á meðan lífeyrissjóðirnir eru að ráða við höggið af völdum hrunsins. Áður stóð að stjórn sjóðsins ætti að gera tillögu um hækkun á iðgjaldi ríkisins. Það er stjórn sjóðsins sem er gerandinn í þessu máli samkvæmt lögunum. Áður en þetta hafði breyst var ekki vísað í þessi lög, þá áttu menn bara að gera þetta hverju sinni.

Ég hélt ræðu þegar þessu var breytt, þann 8. nóvember 2011, vísaði í almennu löggjöfina um lífeyrissjóðina þar sem eru 15% vikmörk. Ég gat einmitt um það að þarna væru menn að lofa inn í framtíðina, vegna þess að ella þyrfti að hækka iðgjaldið um 4 milljarða á ári. Það sagði ég 2011. Ég er farinn að endurtaka mig, herra forseti.