141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[20:48]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Í fyrstu ræðu minni um fjárlagafrumvarpið fór ég aðeins yfir þrjú dæmi um háskóla í Borgarfirði og Skagafirði, þ.e. Háskólann á Bifröst, Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og Háskólann á Hólum og fór yfir það með hvaða hætti þeir skólar væru meðhöndlaðir í fjárlagafrumvarpinu og þeim breytingartillögum sem meiri hluti fjárlaganefndar hefur lagt fram og er eins konar svar við þeim málefnalegum sjónarmiðum sem komu fram í starfi nefndarinnar og þeim ábendingum sem komu þar fram, meðal annars um þessa þrjá tilgreindu háskóla.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að hafa mörg orð um þetta til viðbótar að öðru leyti en því að ég hygg að hæstv. fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hv. þm. Jón Bjarnason, hafi rammað þetta inn með kannski stærri orðum en ég lét þó falla í þeirri umræðunni þegar hann sagði að sú meðhöndlun á þessum þremur skólum lýsti fádæma fávisku þeirra sem um það mál fjölluðu við fjárlagagerðina um starfsemina sem færi fram í þeim skólum. Með öðrum orðum, fyrrverandi ráðherra, núverandi hv. þingmaður, lýsti því þannig að þeir sem væru að véla um fjármál þeirra skóla af hálfu framkvæmdarvaldsins, hæstv. ríkisstjórnar og meiri hluta fjárlaganefndar væru haldnir fádæma fávisku um starfsemina sem þarna færi fram. Það væri ástæðan fyrir því að ekki væri orðið við þeim ábendingum sem hefðu komið fram um að gera þyrfti betur og að breyta þyrfti um kúrs varðandi þá skóla.

Ég læt þessa umfjöllun í sjálfu sér duga að sinni um skólana þrjá en ætla að koma að fleiri atriðum sem ég tel að sýni þann vanda sem menn hafa í raun og veru verið að sópa undir teppið, reynt að horfa fram hjá og ekki tekið á þrátt fyrir að vandamálið blasi við, sem öllum ætti að vera ljóst sem skoða rekstrarumhverfi þessara þriggja háskóla. Og það eru fleiri atriði sem ég ætla að gera að umtalsefni.

Ég hef alveg skilning á því að halda þurfi í og að halda þurfi vel á spöðunum varðandi ríkisfjármálin. Ég er ekki að gagnrýna það. Það sem ég er einfaldlega að segja er að ef það er skoðun manna að þessir skólar til að mynda geti búið við þær fjárveitingar sem fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir þá kallar það á mjög mikið endurmat á starfsemi skólanna. Í tilviki Háskólans á Hólum þýðir það einfaldlega það að þær fjárveitingar duga til að fjármagna skólann út septembermánuð. Ef menn ætla að hlíta fjárlögunum algjörlega í tilviki Hólaskóla yrði að loka öllum dyrum þar 1. október næstkomandi.

Það er þetta sem mér finnst svo mikið gagnrýnisefni, að menn skuli nánast með opin augun ganga svona frá málunum. Það er búið að vekja athygli á vandanum. Búið er að sýna fram á að fjárveitingarnar duga ekki fyrir þann rekstur sem markaður er rammi um í starfsáætlun þessara skóla. Hið pólitíska vald, hið pólitíska meirihlutavald á Alþingi verður þá að axla ábyrgð sína og getur ekki einfaldlega sagt sem svo: Þetta er vandamál sem stjórnendur skólans eiga að leysa með einhverjum hætti. Lausnirnar á því máli eru ekki þær að draga aðeins úr blýantakaupum, kaupa færri strokleður eða eitthvað þess háttar eða skúra aðeins minna út í hornin, það er ekki þannig. Það er heldur ekki hægt að draga úr fjárfestingum því ekki er gert ráð fyrir neinum stórkostlegum fjárfestingum í þeim stofnunum á næsta ári. Það er einfaldlega verið að segja að við verðum að hverfa frá þeirri starfsemi í mjög stórum dráttum sem þar fer fram og haga henni með allt öðru móti og í ýmsum tilvikum að loka deildum og hugsanlega að taka ekki inn nýja nemendur eins og Hólaskóli gæti staðið frammi fyrir þegar á næsta hausti.

Fjórða dæmið sem ég ætla að nefna í þessu sambandi er að menn standa núna frammi fyrir orðnum hlut. Í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár og þrátt fyrir að bætt hafi verið í í fjáraukalögunum sem nýlega voru samþykkt er staðan engu að síður sú, ef ég sný mér núna að vegamálum og Vegagerð ríkisins, að þeir fjármunir sem ætlaðir eru til snjómoksturs í landinu voru í rauninni búnir í októbermánuði. Ef stranglega hefði átt að fara eftir fjárlögunum og eins og skiptingin er þar á einstök viðfangsefni innan Vegagerðarinnar hefði Vegagerðin átt að hætta öllum snjómokstri, hætta að moka vegina. Þá voru nóvembermánuður og desembermánuður eftir áður en menn eru komnir yfir á næsta ár.

Auðvitað gerist þetta ekki svona. Menn reyna að líta fram hjá þessu, hreyfa til fjárveitingar milli viðfangsefna sem er ekki í samræmi við þær reglur og lög um fjárreiður ríkisins sem Alþingi hefur samþykkt. En engu að síður er það þannig að hið pólitíska meirihlutavald á Alþingi kýs að láta sem ekkert sé, kýs að tala eða framkvæma þannig og bregðast þannig við að engin ástæða sé til að bæta þarna í eða gera tillögur um að færa á milli viðfangsefna innan Vegagerðarinnar.

Það sem blasir væntanlega við á næsta ári er að menn verða að takast á við þetta. Þá vaknar sú spurning sem kom upp líka í fyrra: Verður það gert með þeim hætti að taka fjármuni frá sumarviðhaldi veganna, hefla minna, bera minna ofan í, sinna vegunum með einhverjum hætti minna en áður hefur verið gert til þess að fjármagna snjómoksturinn? Það er í rauninni viðfangsefnið sem meiri hluti Alþingis er að búa sig undir, ef þetta verður hin endanlega niðurstaða, að senda skilaboð til stjórnenda Vegagerðarinnar og eftir atvikum hæstv. innanríkisráðherra um að taka slíka ákvörðun. Þá verða menn bara að horfast í augu við það og það er þá hinn pólitíski vilji á Alþingi sem við getum ekkert frekar að gert. En allt er þetta liður í því að reyna að ýta vandanum á undan sér til að reyna að geta sýnt fram á betri árangur í ríkisfjármálum, um einhverjar krónur og aura til þess síðan að geta hreykt sér af því að náðst hafi einhver árangur í ríkisfjármálum, þó að allir viti að ekki er verið að ná neinum raunverulegum árangri. Það er einfaldlega verið að ýta vandanum á undan sér, láta sem ekkert sé, láta sem menn hafi ekki tekið eftir því sem þarna er að gerast.

Annað dæmi sem ég ætla að nefna til viðbótar í þessu sambandi er staða innanlandsflugsins. Við ræddum það mál mikið fyrr í haust þegar erfið staða kom upp hjá Flugfélaginu Ernir sem sér um innanlandsflug á allnokkra staði. Það hefur notið ríkisstuðnings til að hægt sé að halda úti innanlandsflugi. Flugfélagið flýgur á Bíldudal, Gjögur og Höfn í Hornafirði á grundvelli ríkisstyrks, á grundvelli útboðs sem á sínum tíma fór fram. Frá því það útboð fór fram hafa aðstæðurnar breyst gríðarlega mikið. Kostnaður hefur aukist heilmikið. Hæstv. ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir því að hækka ýmsa kostnaðarliði meðal annars með þeirri stefnumörkun að stærri hluti af rekstrarkostnaði flugvallanna er núna borinn uppi af tekjum sem eru innheimtar af farþegum og bitnar fyrst á þeim fyrirtækjum sem fljúga á þessum flugleiðum og síðan að einhverju leyti á farþegunum eftir því sem fyrirtækin geta velt þeim kostnaði af sínum herðum ofan í vasa þeirra sem ferðast um þessa flugvelli. Við sjáum hvernig þetta hefur birst. Þetta hefur birst í því að fargjöldin hafa verið að hækka núna ár frá ári sem gerir það aftur á móti að verkum að smám saman dregur úr farþegafjöldanum í innanlandsfluginu, sem aftur á móti gerir það að verkum að rekstur fyrirtækjanna verður stöðugt erfiðari.

Í haust tókst sem betur fer svo vel til að hægt var að bjarga málum í horn með því að hæstv. innanríkisráðherra beitti sér fyrir því að greidd var út upphæð sem ella hefði komið til greiðslu í upphafi næsta árs. Sú upphæð var greidd út núna fyrr á árinu sem gerði það að verkum að Flugfélagið Ernir þurfti ekki að grípa til þess óyndisúrræðis sem þeir hefðu annars verið neyddir til að grípa til, sem var að hætta fluginu á fyrrnefnda staði, einfaldlega vegna þess að fyrirtækið hafði ekki burði til að reka flugið á þeim forsendum sem fyrir það var lagt í þeim samningi sem á sínum tíma var gerður og er á margan hátt orðinn mjög úreltur.

Nú sjáum við að enn er ætlunin að vega í sama knérunn. Enn er ætlunin að hækka gjöldin á innanlandsflugið. Isavia boðar verulegar hækkanir á sínum töxtum sem verða líka á endanum bornir af annars vegar farþegunum og hins vegar af fyrirtækjunum sem fljúga á umræddum leiðum. Þetta er með öðrum orðum bein skattlagning sem þarna er verið að framkvæma á þeim sem búa við þær samgöngur að þurfa að nýta flugsamgöngurnar en eiga kannski ekki marga aðra kosti. Mér finnst að þarna sé vegið að þeim sem síst skyldi í þeim efnum.

Allir vita auðvitað að þær fjárveitingar sem ætlaðar eru til innanlandsflugsins munu ekki hrökkva til þess sem þeim er ætlað að standa undir, sem er að halda úti innanlandsfluginu með eðlilegum og skynsamlegum hætti. Það mun þýða þegar tímar líða fram að þetta flug mun væntanlega leggjast af. Það þarf að fara í annað útboð. Það gerist þá væntanlega að undangenginni mikilli óvissu í sambandi við flugið. Að lokum verður kostnaðurinn meiri sem ríkissjóður þarf svo á endanum að borga væntanlega. Í umræðunum sem fóru fram um þessi mál á Alþingi kom fram að það væri einlægur ásetningur stjórnvalda að halda úti flugi á þá staði sem ekki væri hægt að fljúga til á markaðslegum forsendum. Það liggur því fyrir að hin pólitíska yfirlýsing í málinu er sú að ekki sé ætlunin að hverfa frá ríkisstuðningi, ætlunin sé ekki sú að þetta flug muni leggjast af. En í stað þess að taka á málinu og grípa á vandanum sem liggur fyrir núna, og allir vita að er til staðar, þá er málinu líka ýtt á undan sér, látið sem ekkert sé, kíkirinn settur aftur fyrir blinda augað, málin skoðuð þannig og komist er að þeirri niðurstöðu að flýtur á meðan ekki sekkur, við skulum bara halda þessu áfram, flugið heldur áfram þangað til það mun stöðvast einn góðan veðurdag. Þá verður einhvern veginn gripið á því.

Það er ekki mjög skynsamlegt verklag, fyrir utan það að þetta er mjög vont fyrir alla þá sem eiga við að búa og mun auðvitað fyrr eða síðar hefna sín. Hugsunin er greinilega sú hjá þeim sem afgreiða þetta fjárlagafrumvarp núna að syndafallið komi eftir þeirra dag. Syndafallið kemur eftir minn dag, var einu sinni sagt. Það er auðvitað hugsunin, að komast hjá því að auka fjárveitingar til þessa málaflokks þannig að ekki safnist í aukinn halla hjá ríkissjóði. Og síðan vita menn að einhvern tímann þegar líður á næsta ár, eftir næstu kosningar kannski, þurfa þeir sem þá verða við stjórnvölinn að taka á þeim málum.

Þetta eru þau tvö viðbótardæmi sem ég tek um það hvernig menn eru í raun og veru að fela þann vanda sem sannarlega er við að glíma og koma svo hingað býsna kokhraustir og segja okkur að til hafi orðið eitthvað sem menn kalla Árangurinn — með stórum staf og greini. Og árangurinn birtist í því að menn eru í rauninni að blekkja sig áfram með tölunum, með því að halda eftir eða takast ekki á við vandamálin sem þó liggja algjörlega fyrir og öllum er algjörlega ljóst hver eru.

Virðulegi forseti. Eins og menn muna var ný löggjöf um veiðigjöld samþykkt í vor. Sú löggjöf var gríðarlega umdeild og margir héldu því fram að hún mundi hafa mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir sjávarútveginn í landinu. Til yrði heilmikil samþjöppun í sjávarútveginum, einyrkjum mundi fækka í sjávarútvegi, sérstaklega mundi þeim fækka sem væru með útgerð án vinnslu og afleiðingarnar gætu orðið býsna alvarlegar fyrir mörg svæði og mörg sveitarfélög. Við höfum þegar séð hvernig það birtist okkur núna dag frá degi. Það var svartur dagur í hugum margra þeirra sem hafa staðið í útgerð núna fyrst í desember þegar gíróseðillinn stóri frá hæstv. ráðherrum kom til útvegsins og margir báru mikinn kvíðboga fyrir því.

Ef við skoðum þessi mál í öðru samhengi og látum liggja á milli hluta stóru umræðuna um sjávarútvegsmálin, sem við munum væntanlega takast á við einhvern tíma í vetur í einhverju formi, í hvaða formi það verður veit ég náttúrlega ekki, en lítum aðeins fram hjá þeirri umræðu og bíðum og geymum okkur hana og förum yfir í önnur mál sem eru þessu nátengd.

Í fjáraukalagafrumvarpinu sem var samþykkt fyrr í haust var gert ráð fyrir að Fiskistofa fengi í sinn hlut 40 millj. kr. fjárheimild til að standa undir kostnaði stofnunarinnar um aukna og umfangsmikla umsýslu við álagningu og innheimtu veiðigjalda í samræmi við kostnaðarmat sem fylgdi því frumvarpi á sínum tíma. Ég spurðist fyrir um það í umræðunni hjá hv. formanni fjárlaganefndar hvort um væri að ræða einskiptisaðgerð eða hvort um væri að ræða varanlega hækkun á fjárframlögum til Fiskistofu. Hv. þingmaður svaraði því á greinargóðan hátt og greindi frá því að um væri að ræða almenna stækkun á ramma Fiskistofu. Með öðrum orðum, kostnaðurinn við þá herleiðingu og innleiðingu á veiðigjaldinu bara hvað Fiskistofu áhrærir er 45 millj. kr. á ári fram í tímann.

Það sem vakti hins vegar athygli mína í umfjöllun nefndarinnar um þetta á sínum tíma var að talað var um að sú áætlun gerði ráð fyrir að ráða þyrfti að minnsta kosti fjóra sérfræðinga, meðal annars á sviði lögfræði og reikningshalds. Ég spurði um hvað „að minnsta kosti“ þýddi, hvort menn væru til dæmis að búa sig undir það að 40 milljónirnar mundu mögulega ekki hrökkva til, 40 milljónirnar voru greinilega ætlaðar til þess að borga laun þessara fjögurra sérfræðinga og annan kostnað sem þeim fylgdi, en greinilega var verið að gera því skóna að sú tala gæti síðan hækkað, úr því að menn töluðu um að ráða þyrfti að minnsta kosti fjóra sérfræðinga. Svo kom auðvitað fram að þeir sérfræðingar eru ráðnir til starfa í höfuðstöðvum Fiskistofu í Hafnarfirði þrátt fyrir að Fiskistofa hafi starfsstöðvar úti um allt land. Þetta er náttúrlega orðið svolítið kórónan á sjálfu sköpunarverkinu.

Við höfum veiðigjöld sem að 90% falla til hjá útgerðum utan höfuðborgarsvæðisins. Hins vegar er það þannig að þessi veiðigjöld leiða til kostnaðar í stjórnsýslunni og stjórnsýslan eykst fyrir vikið og það gerist á höfuðborgarsvæðinu. Með öðrum orðum, verið er að taka peninga beint út úr atvinnugreininni sem er á landsbyggðinni, setja þá inn í ríkissjóð, til að nýta fjármunina í ríkissjóði sem munu að langmestu leyti falla til, eins og við sjáum hvernig fjárlögin eru uppbyggð, á höfuðborgarsvæðinu. Og til að strá pínulitlu salti í sárin mun umsýslukostnaðurinn upp á 40 millj. kr., að lágmarki greinilega, koma til atvinnusköpunar á höfuðborgarsvæðinu sem fær þó allar tekjurnar meira og minna af veiðigjaldinu.

Það sem vekur athygli mína í breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar er að gerð er tillaga um að inn í fjárlög á næsta ári fari 40 millj. kr. fjárheimild til að standa undir þeim kostnaði sem ég hef aðeins gert grein fyrir. En síðan segir í skýringum við breytingartillögurnar, með leyfi forseta:

„Í meðförum þingsins voru gerðar breytingar á frumvarpinu“ — þ.e. frumvarpi um veiðigjöldin — „sem leggja flókna vinnu og utanumhald á starfsmenn Fiskistofu við útreikning á rétti einstakra aðila til að fá veiðigjald lækkað vegna vaxtakostnaðar þeirra við kaup á aflahlutdeild fyrir gildistöku laganna. Í þessari tillögu“ — þ.e. tillögunni upp á 40 millj. kr. — „er ekki tekið tillit til hugsanlegs viðbótarkostnaðar Fiskistofu sem rekja má til breytinga þingsins.“

Hvað er verið að segja? Hér er verið að segja okkur að þessi fjárheimild upp á 40 millj. kr. sem búið er að reikna inn í ramma Fiskistofu með varanlegum hætti sem er kostnaður, herkostnaðurinn við það að innleiða þetta nýja veiðigjald bara hvað varðar Fiskistofuna, að tillagan upp á 40 millj. kr. segi ekki alla söguna, því að það sé þannig að það muni líka koma til mögulegur viðbótarkostnaður sem megi rekja til þessara breytinga þingsins. Það sem Alþingi á þá að samþykkja er að reiddar verði fram 40 milljónir vegna laga sem Alþingi setti á sínum tíma að frumkvæði framkvæmdarvaldsins. En aðrar breytingar sem gerðar voru á þessari löggjöf, á frumvarpinu sem hæstv. atvinnuvegaráðherra lagði fram, og leiddu til kostnaðar — ekki er gert ráð fyrir því að það sé borið uppi í þeim breytingartillögum við það fjárlagafrumvarp sem við ræðum núna.

Þetta er enn eitt dæmið um hvernig menn eru stöðugt að láta sem ekkert sé, þykjast ekki taka eftir því að Alþingi sjálft gerði breytingar á löggjöf um veiðigjöldin. Þær breytingar út af fyrir sig voru skynsamlegar svo langt sem þær náðu, en þá vaknar óhjákvæmilega sú spurning: Af hverju er það þannig að þegar Alþingi samþykkir breytingartillögu sem leiðir til útgjalda af hálfu ríkisins er ekki talin ástæða til að Alþingi viðurkenni þann kostnað sem það sjálft er að leggja á Fiskistofu og mun væntanlega hafa það í för með sér að Fiskistofa þarf að reiða fram þá fjármuni án þess að gert sé ráð fyrir því að þeir fjármunir séu til staðar?

Mér finnst Alþingi leggjast þarna mjög lágt. Það samþykkir breytingartillögu um 40 millj. kr. hækkun (Forseti hringir.) sem leiðir af frumvarpi sem hæstv. ráðherra flytur, en þær breytingartillögur sem Alþingi hefur frumkvæði að og leiða til kostnaðar, (Forseti hringir.) ekki er tekið tillit til þess í þeim breytingartillögum sem fyrir liggja frá meiri hluta fjárlaganefndar við 2. umr. málsins.