141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:51]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Já, svona rétt til að ljúka þessari umræðu var það algjörlega með ólíkindum að hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra skyldi koma í pontu í dag, ekki til að ræða fjárlagafrumvarpið heldur kvaddi hann sér sérstaklega hljóðs undir liðnum um störf þingsins sem venjulega er ætlaður okkur þingmönnum til að skiptast á skoðunum við aðra þingmenn. Við höfum aðra fyrirspurnatíma ráðherra. Nei, hann kom hér á sínum háa hesti til að tala til þingsins með einkar miklum leiðindatón og kom með skilaboð sem mér þóttu mjög undarleg. Hann hefur hins vegar engan þátt tekið í umræðunni um fjárlagafrumvarpið. Mér finnst það algjörlega óskiljanlegt.

Hv. þingmaður ræddi um byggingu nýs spítala í höfuðborginni. Mig langaði að spyrja hv. þingmann um skoðanir á þeirri byggingu. Nú heyrir maður í fjölmiðlum að þetta eigi að vera hefðbundin ríkisframkvæmd en við höfum ekki séð nein frumvörp eða þingmál þess efnis. Þessar tölur eru allar á reiki, en ætli þetta séu þá ekki 60–100 milljarðar sem við erum að tala um þarna? Á sama tíma hefur Heilbrigðisstofnunin Vestmannaeyjum ekki fjármagn til þess að kaupa gardínur á skrifstofur lækna, hvað þá að manna rekstur spítalans þannig að hægt sé að halda úti fullnægjandi þjónustu fyrir íbúana.

Ég spyr hv. þingmann um álit hans á þeirri framkvæmd sem fyrirhugað er að fara í í höfuðborginni.