141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[23:35]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil gjarnan fá að vita hvort hægt sé að fá hæstv. innanríkisráðherra hingað í hús til að ræða þær fjárlagatillögur sem hafa verið gerðar af meiri hluta fjárlaganefndar á milli 1. og 2. umr. Ég þyrfti að spyrja hann spurninga varðandi millidómsstigið sem kemur hvergi fram í þessum breytingartillögum um málefni lögreglunnar. Miðað við þær tillögur sem liggja fyrir er alveg ljóst að þær eru í engu samræmi við þær hugmyndir og þær væntingar sem ekki síst starfsmenn ráðuneytisins settu fram á fundi allsherjar- og menntamálanefndar varðandi lögregluna. Það kom margoft fram að ekki væri hægt að skera meira niður og lögreglan þyrfti ákveðið framlag, bæði á suðvesturhorninu en ekki síður á landsbyggðinni í þeim kjördæmum sem eru afar víðfeðm.

Síðast en ekki síst vildi ég gjarnan spyrja hæstv. ráðherra um ríkissaksóknara, aukninguna hjá (Forseti hringir.) ríkissaksóknara og hvaða áhrif það hefur meðal annars á rannsókn kynferðisbrota. Ég fer fram á það við hæstv. forseta (Forseti hringir.) að hæstv. innanríkisráðherra verði kallaður til.