141. löggjafarþing — 46. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[00:59]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera að umtalsefni í ræðu minni þá misskiptingu sem á sér stað gagnvart uppbyggingu í þjóðgörðum á landinu. Fyrst vil ég þó vekja athygli á því sem blasir við öllum sem hafa vilja til að kynna sér þetta fjárlagafrumvarp og áhrif þess á hvort heldur sem er rekstur einstakra stofnana eða heimilin í landinu. Núna er enn einu sinni farin sú leið að hækka svokallaða óbeina skatta sem fara inn í vísitöluna. Það hefur þær afleiðingar að lán heimilanna hækka og auðvitað öll lán sem eru fyrir hendi, hvort heldur er hjá fyrirtækjum eða heimilum.

Mig langar að koma inn á það sem gerist gagnvart heimilunum í landinu. Nú hefur ríkisstjórnin verið gagnrýnd harðlega fyrir það getuleysi sem hún hefur sýnt einstaklingum sem eiga því miður í vandræðum. Þótt hækkunin sé ekki mikil í þessu tilfelli hér, og ekki jafngeigvænleg og hún var til að mynda fyrir fjárlögin fyrir árið 2011, eru óbeinu skattahækkanirnar um 0,25% sem mun hafa áhrif á vísitöluna. Hvað þýðir þetta? Þetta er ekki há tala, 0,25%. Svo getum við tekið umræðuna um hversu skynsamlegt er að hækka enn frekar gjaldið á áfengi og tóbak og hverju það muni á endanum skila til ríkissjóðs. Það er reynslan að þótt gjaldið sé hækkað þá skilar sér minna og við vitum öll af hverju það er.

En hvaða áhrif skyldi þetta hafa á heimilin í landinu? Bara heimilin skulda um 1.750 milljarða, sem er að langstærstum hluta vegna húsnæðiskaupa. Ef maður leggur þetta saman og slær á það í huganum eru þetta í kringum 4,5 milljarðar sem lán heimilanna hækka um út af þessum skattkerfisbreytingum, fyrir utan aðrar skattkerfisbreytingar sem rýra tekjur eða kaupmátt heimilanna. Þannig að við sjáum hversu gríðarleg áhrif það hefur að vera að hækka skattana sem fara inn í vísitöluna og munu á endanum ekki skila því sem til er ætlast eins og reynslan sýnir.

Eigi að síður er ekki hægt að taka umræðu við hv. stjórnarliða um hversu skynsamlegt er að gera þessar breytingar á sama tíma og heimilin í landinu eru því miður allt of mörg í vandræðum með að sjá sér farborða. Það er vegna aðstæðna og getuleysis ríkisstjórnarinnar til þess að skapa hagvöxt og þá atvinnu sem bráðvantar.

Þetta er hinn blákaldi veruleiki sem blasir við heimilunum í landinu.

Ég ætla að koma inn á misskiptingu sem á sér stað hér. Nú erum við með þrjá þjóðgarða rekna á landinu, Þingvallaþjóðgarð, Vatnajökulsþjóðgarð og Snæfellsjökulsþjóðgarð. Það er farið í ákveðna uppbyggingu gegnum fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar, sem er nú kannski eitt af skynsamlegri verkum sem má sjá í fjárfestingaráætluninni. Það hefur mikið verið rætt um að herða þyrfti betur á og byggja upp ferðamannastaðina til að taka á móti öllum þeim ferðamönnum sem koma. Ef við tökum það sem er ráðstafað beint út úr fjárfestingaráætluninni er byrjað á því að setja 59 milljónir í Þingvallaþjóðgarð. Síðan skulum við taka næsta þjóðgarð sem er Vatnajökulsþjóðgarður. Hann fær annars vegar beint framlag til að fara í uppbyggingu á gestastofu, einni til viðbótar, upp á um 900 millj. kr. Það eru reyndar 290 millj. kr. inni í frumvarpinu núna og síðan gert ráð fyrir því að það verði eins tvö næstu ár þar á eftir, þ.e. 900 millj. kr. til að fara í stofnframkvæmdir þar. Þessu til viðbótar er sett pósitíft ákvæði um 30 millj. kr. framlag annars vegar og 57 millj. kr. framlag hins vegar. Þá er það upptalið sem fer í uppbygginguna á þjóðgörðunum.

Við skulum líka rifja upp að í fjáraukalögunum sem við samþykktum fyrir nokkrum missirum síðan voru settar 90 millj. kr. til viðbótar til uppbyggingar í Vatnajökulsþjóðgarði, í raun og veru í það að greiða upp í neikvæðan höfuðstól.

Nú er ég ekki að tala á móti uppbyggingunni á þessum stöðum. Það má ekki skilja mig með þeim hætti, en eigi að síður blasir við það einelti sem er gagnvart Snæfellsjökulsþjóðgarði, eins og ég hef orðað það stundum. Það er ekki ein einasta króna í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar ætluð í uppbyggingu þar. Þrátt fyrir að það sé rúmur áratugur síðan þjóðgarðurinn var stofnaður og það hefur aldrei komið stofnframlag inn í þjóðgarðinn — aldrei — ekki ein einasta króna.

Við skulum líka rifja upp að við niðurskurð á þorskaflaheimildunum 2007 var sett inn sem sérstakt verkefni að byggja gestastofu í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli, því þar hefur engin uppbygging átt sér stað. Nei, það skal líka svikið þótt það hafi verið gert ráð fyrir því og sett inn pósitíft ákvæði. Nei, það skal svikið, þótt nánast öll önnur verkefni séu búin fyrir utan veginn um Öxi og veginn um Fróðárheiði. Önnur verkefni voru kláruð sem mótvægisaðgerð við þær aðgerðir sem farið var í í niðurskurði á þorskafla. Nei, enn eina ferðina skal það vera gert með þessum hætti. Ef við skoðum umfang rekstrarins, sem er kannski ekkert sanngjarnt og sambærilegt að bera saman, er það auðvitað þannig að Snæfellsjökulsþjóðgarður fær brotabrot af því sem þeir fá í reksturinn í þjóðgarðinum á Þingvöllum og Vatnajökulsþjóðgarði.

Þetta dugar ekki til. Það er haldið áfram. Það er sett fram með því að 500 milljónir eru inni í iðnaðarráðuneytinu, þetta er skiptingin út úr því sem er í umhverfisráðuneytinu. Það er auðvitað umhugsunarefni hvers vegna það skuli vera á tveimur stöðum, annars vegar undir gamla iðnaðarráðuneytinu eða nýsköpunar- og atvinnuvegaráðuneytinu þar sem eru settar um 500 milljónir, þá er sett pósitíft ákvæði inn í ráðstöfunina á því.

Mig langar að vitna beint í það sem kemur fram um uppbyggingu á friðlýstum svæðum og þjóðgörðum. Þar stendur þetta með tillögu meiri hlutans um úthlutun á þessum 500 millj. kr., með leyfi forseta:

„Þar getur verið um að ræða ferðamannastaði í þjóðgörðum eins og á Þingvöllum eða í Vatnajökulsþjóðgarði …“

Snæfellsjökulsþjóðgarður er ekki nefndur á nafn og ráðstöfunin svo að búið er að eyrnamerkja sérstaklega út úr þeirri fjárveitingu sem er inni í umhverfisráðuneytinu til uppbyggingar í þessa þjóðgarða sem taldir eru hér upp. Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull er ekki einu sinni nefndur á nafn. Þetta er í raun og veru ekkert annað en einelti.

Spurning sem maður hlýtur að velta fyrir sér: Af hverju við erum með þetta undir tveimur ráðuneytum? Annars vegar þennan 500 millj. kr. pott undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og hins vegar inni í umhverfisráðuneytinu. Það er sérkapítuli út af fyrir sig.

Síðan er haldið áfram. Hvað skyldi hafa fylgt með breytingartillögum meiri hlutans á 6. gr. heimildum? Þar er lagt til að einu byggingarnar sem eru innan Snæfellsjökulsþjóðgarðs, sem eru byggingarnar á Gufuskálum, skulu seldar. Hversu skynsamlegt er að selja eignir sem eru inni í þjóðgörðum? Það er auðvitað ekki skynsamlegt. Það er sett 6. gr. heimild að selja eignirnar inni í þjóðgarðinum.

Ef við skoðum 6. gr. heimildina sem snýr að Þingvallaþjóðgarði er sagt að þar eigi að kaupa sumarbústaði í þjóðgarðinum og ekki bara það, heldur líka sagt: Það á að kaupa jarðir í næsta nágrenni þjóðgarðsins. Það er væntanlega til þess að hugsa fyrir því ef hann verður stækkaður. En það er verið að selja þær eignir sem eru inni í þjóðgarðinum Snæfellsjökli. Það er orðið svo sláandi, virðulegi forseti, hvernig staðið er að uppbyggingu á þessum þremur þjóðgörðum, að það skuli alltaf sá eini og sami vera út undan. Það er ekki fallegt og það er ekki gott.

Þess vegna segi ég að þetta er ekki hægt að túlka öðruvísi en sem einelti gagnvart þessum eina þjóðgarði á móti hinum.

Ég ítreka aftur að ég er ekki á móti uppbyggingu í hinum þjóðgörðunum, en ég vil sanngirni. Ég vil réttlæti til að hægt sé að segja að það séu settir einhverjir fjármunir í Snæfellsjökulsþjóðgarð. Einelti, virðulegi forseti, er ljótt.