141. löggjafarþing — 46. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[01:33]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Eftir því sem þessari umræðu hefur undið fram þeim mun betur er manni ljóst hversu margar veilur eru í þessu fjárlagafrumvarpi þrátt fyrir allt. Á fyrstu stigum umræðunnar héldu ýmsir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar því fram að þetta fjárlagafrumvarp bryti á vissan hátt í blað í sögu núverandi ríkisstjórnar, loksins væri verið að ná utan um helstu viðfangsefnin og vandamálin sem væru í ríkisfjármálastjórninni. Sumir hafa gengið svo langt að segja sem svo að þetta fjárlagafrumvarp sé það besta sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt fram.

Nú vil ég segja út af því, eins og ég hef áður sagt, að það er nú kannski ekkert mjög glæsilegur samanburður vegna þess að það sem á undan hefur komið er ekki svo burðugt að menn geti verið að búa til einhver viðmið út frá því og miða þetta fjárlagafrumvarp við þau ósköp sem við höfum séð í gegnum tíðina frá hæstv. ríkisstjórn. Eins og ég nefndi fyrr í dag rakti 1. minni hluti hv. fjárlaganefndar það mjög vel í nefndaráliti sínu vegna fjáraukalagafrumvarpsins hvernig veilurnar hafa komið fram smám saman. Eftir að fjárlagafrumvörp voru afgreidd fór að bóla á einstökum fjárveitingum sem voru síðan teknar saman í fjáraukalagafrumvarp og síðan sáu menn enn og aftur birtast enn aðrar tölur sem endurspegluðu útgjaldaþenslu í ríkisreikningi. Í raun og veru er fjárlagafrumvarpið, eins og það hefur verið afgreitt af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, því tiltölulega lítill vegvísir um það sem þarf að vera í alvöru fjárlagafrumvarpi þar sem metnaður er sýndur til þess að reyna að ná utan um það sem er viðfangsefnið á hverjum tíma.

Það er af ótal mörgu að taka. Við höfum séð þetta birtast í stóru og smáu. Ég hef til dæmis verið að rekja hér hvernig háskólar eru leiknir í þessu frumvarpi. Þar er vísvitandi gengið þannig frá málum að fjárlagafrumvarpið endurspeglar engan veginn þá fjárveitingaþörf sem þessir skólar þurfa í ljósi þess að þeir eru að reyna að halda úti sambærilegu umfangi miðað við það sem þeir hafa verið að gera á undanförnum árum. Það er hvergi verið að tala um neinar nýjungar. Það er hvergi verið að tala um nýjar fjárfestingar. Það mun auðvitað ekki geta gengið til lengri tíma. Háskóli án fjárfestinga er jafnilla settur og önnur viðfangsefni í fjárlögunum án fjárfestinga. Það er einhver hlutur sem menn geta auðvitað leyft sér um tíma en ekki til lengri tíma.

Við sjáum að þannig er gengið frá þessu fjárlagafrumvarpi, eins og það blasir við okkur miðað við breytingartillögur meiri hlutans þegar komið er til 2. umr., að það er alveg ljóst mál að þessi starfsemi mun ekki geta þróast með eðlilegum hætti. 2. umr. er eins og við vitum alla jafna efnisríkasta umræðan. Þá eru kynntar helstu breytingartillögur þannig að við sjáum nokkurn veginn það fjárlagafrumvarp sem ætlunin er að afgreiða endanlega ef hæstv. ríkisstjórn nær sínu fram.

Ég ætla að taka enn eitt dæmi um þetta og vekja athygli á því að í 6. gr. heimild fjárlagafrumvarpsins er kveðið á um að heimila sölu ríkisins á eignarhlut þess í sparisjóðum. Nú hafa þau mál verið býsna mikið rædd hér á Alþingi. Okkur er nokkuð ljóst orðið hvaða hugmyndir menn hafa haft uppi, eða að minnsta kosti af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, um sölu eignarhluta ríkisins í sparisjóðunum. Eins og við vitum voru nokkrir sparisjóðir svo illa leiknir að sérstök björgunaraðgerð þurfti að koma til af hálfu ríkisvaldsins. Það má segja að sú vegferð hafi verið mótuð strax með neyðarlögunum, sem voru sett í október 2008, þegar gert var ráð fyrir því að til hliðar yrðu teknir sérstakir fjármunir til að rétta af hlut sparisjóðanna. Það var auðvitað mjög brýnt og mikilvægt verkefni. Sparisjóðirnir gegna miklu hlutverki í fjármálalífi okkar og það væri auðvitað hrikaleg staða ef það kæmi upp að sparisjóðirnir mundu smám saman týna tölunni eins og allt hefði að öðru óbreyttu stefnt í. Ríkisvaldið kom þess vegna til skjalanna, lagði umtalsverða fjármuni inn í þessar stofnanir til að reyna að bjarga því sem bjargað varð. Hins vegar hefur ríkt algjört stefnuleysi og ráðleysi af hálfu ríkisstjórnarinnar þegar hefur komið að því að átta sig á því með hvaða hætti við ætluðum að móta kerfi sparisjóðanna til lengri tíma.

Það blasir til dæmis við, samkvæmt áliti Samkeppniseftirlitsins, að samþjöppun á fjármálamarkaði hér á landi hefur aldrei nokkurn tímann verið meiri en núna. Það var oft talað um það á velmegtarárum gömlu fjármálastofnananna að samþjöppunin væri orðin mjög mikil, stóru fjármálafyrirtækin á þeim tíma, Kaupþing, Landsbankinn og Glitnir, væru svo ráðandi að aðrar fjármálastofnanir ættu sér ekki mikla lífsvon í þeirri miklu samkeppni sem þá var um fjármagn. Fjármagnið var að vísu yfirfljótandi, en engu að síður var samkeppni á milli þessara fyrirtækja. Fjármálastofnanir eins og sparisjóðirnir urðu þess vegna að berjast um í mjög erfiðu samkeppnisumhverfi.

Þegar menn skoða stöðuna á fjármálamarkaðnum þá og bera hana saman við það sem er nú blasir við skýr þróun í átt til stóraukinnar samþjöppunar. Við sjáum því miður ekki nein merki um að þetta sé neitt að breytast. Við vitum til dæmis að mikil óvissa hvílir núna yfir rekstri og framtíð Afls, sparisjóðsins á Siglufirði og Sauðárkróki, og óvíst hvernig þeim málum öllum lýkur. Ef það gerist þannig að sá sparisjóður hverfi inn í einn af viðskiptabönkunum þremur — eins og ýmislegt virðist því miður benda til núna, nema menn grípi til einhverra úrræða og þar hefur ríkisstjórnin miklu hlutverki að gegna — munu stoðir sparisjóðakerfisins í dag fúna mjög mikið og gera það að verkum að mjög erfitt verður að halda úti því sparisjóðakerfi sem við viljum að sé til staðar.

Ég hef allnokkrum sinnum tekið þetta mál upp hér á Alþingi og meðal annars spurt hæstv. atvinnu- og nýsköpunarráðherra, en undir hann heyrir fjármálamarkaðurinn. Ég batt satt að segja nokkrar vonir við svar hæstv. ráðherra við eftirleitan minni um þessi mál. Þegar hæstv. ráðherra sagði að það væri ætlun sín að þegar farið yrði í að selja eignarhlut ríkisins í sparisjóðunum yrði það gert á þann hátt að núverandi eða nýir stofnfjáreigendur hefðu fyrsta rétt til að kaupa eignarhlut ríkisins og markmiðið væri að viðhalda sparisjóðakerfinu. Hæstv. ráðherra tók undir það með mér að það væri mjög vond þróun ef sparisjóðakerfið á Íslandi liði undir lok eða yrði svo óburðugt að það veitti ekki neina samkeppni.

Við vitum líka, og það er boðað mjög í þessu fjárlagafrumvarpi, að sú skattstefna sem hæstv. ríkisstjórn hefur fylgt gagnvart fjármálastofnunum í landinu hefur bitnað langharðast á litlu fjármálastofnunum, ekki bara sparisjóðunum heldur líka ýmsum öðrum nýjum fjármálastofnunum sem hafa verið að reyna að hasla sér völl í því erfiða samkeppnisumhverfi sem nú ríkir á þessu sviði. Við sjáum að þeir skattar sem hafa verið lagðir á, sem hafa meðal annars beinst sérstaklega að launaþættinum í rekstri þessara fjármálafyrirtækja, hafa gert það að verkum að fjármálafyrirtækin hafa farið út í að segja upp starfsfólki og einkanlega konum, enda virðist það vera orðin einhver plagsiður, í nafni hinnar kynjuðu fjármálastjórnar og hagstjórnar ríkisins, að uppsagnir sem eigi sér stað þar sem ríkið getur nokkru um ráðið beinist sérstaklega að konum. Það er með öðrum orðum hin skýra forgangsröðun og hin skýra stefna sem hæstv. ríkisstjórn hefur, þ.e. að uppsagnir, bæði á heilbrigðissviðinu og nú á fjármálamarkaðnum, beinist mjög að konum eins og við sjáum.

Það skiptir því mjög miklu máli hvernig hæstv. ríkisstjórn hyggst fara með þá 6. gr. heimild sem hún er nú að reyna að afla sér lögmætis á með því að fá samþykkt við fjárlagaafgreiðsluna. Það skiptir mjög miklu máli hvernig hugmyndin er að fara með þetta mál. Þess vegna hefði verið mjög mikilvægt fyrir okkur, í þessari umræðu áður en henni vindur eitthvað lengra áfram, að hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, sem er staddur í húsinu — ég efast um að hann heyri mál mitt, ég geri ekki ráð fyrir að hæstv. ráðherra láti svo lítið að fylgjast með þessari umræðu að öðru leyti en því að fylgjast með því í gegnum sjónvarpsskjái sína með óskipulegum hætti hvernig umræðum vindur fram. Það hefði engu að síður verið mjög mikilvægt að hæstv. ráðherra svaraði því undanbragðalaust hvernig yrði staðið að þessum málum. Það hlýtur að spila mjög mikið inn í afstöðu okkar til þessarar 6. gr. heimildar með hvaða hætti hæstv. ráðherra hyggst fara með þessa heimild. Þetta er býsna opin heimild og það skiptir máli hvernig farið verður með hana. Áður (Forseti hringir.) en við getum tekið afstöðu til þeirrar tillögu sem getur að líta í fjárlagafrumvarpinu verðum við að hafa séð meira á spil hæstv. ráðherra. Hæstv. ráðherra verður að greina okkur frá því hvernig staðið verður að þessari sölu.