141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við uppsögnum hjúkrunarfræðinga.

[15:10]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður óskar eftir því að fá skýr svör. Eins og ég sagði hafa átt sér stað viðræður innan spítalans en jafnframt hafa fulltrúar bæði velferðar- og fjármálaráðuneytisins komið að málinu til að skoða með hvaða hætti hugsanlegt er að koma að lausnum. Svo langt erum við ekki komin að við getum nákvæmlega sagt hvað þarf til eða hversu miklu við getum spilað út. Við erum að ræða stofnanasamning, við erum fyrst og fremst að ræða um óánægju vegna þess að hann hafi ekki verið gerður og væntingar sem eru býsna miklar varðandi marga liði.

Fram kom í morgun að við höfum farið í viðtöl við viðkomandi aðila til að átta okkur betur á því hvaða kröfur og væntingar eru varðandi málið. Ljóst er að við munum verða á hliðarlínunni og tilbúin að grípa inn í, bæði velferðarráðuneytið og fjármálaráðuneytið. Fjármálaráðuneytið fer með kjarasamninga en velferðarráðuneytið með þjónustuna á Landspítalanum og þá starfsemi sem þar fer fram.

Það fer enginn í grafgötur með að málið er háalvarlegt og við munum að sjálfsögðu taka á því sem slíku.