141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[11:15]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Hér er um að ræða illa ígrundaðar hugmyndir ríkisstjórnarinnar gagnvart ferðaþjónustunni í landinu. Það er verið að hækka skatta á þessa atvinnugrein með mjög litlum fyrirvara sem hefur leitt það af sér að aðilar í ferðaþjónustu hafa sett uppbyggingu á bið, m.a. í Borgarfirði, á Snæfellsnesi og í Skagafirði. Það er búið að slá af ráðstefnur sem halda átti hér á landi vegna þessara óljósu fyrirætlana ríkisstjórnarinnar. Ríkissjóður verður þannig af heilmiklum tekjum sem hefðu skapast með uppbyggingu í ferðaþjónustu og ráðstefnuhaldi. Þetta er enn eitt dæmið um þann hringlandahátt sem ríkisstjórnin hefur gagnvart grundvallaratvinnugreinum landsins og þess vegna segjum við framsóknarmenn nei við þessari auknu skattheimtu sem fyrirvaralaust á að lenda á íslensku ferðaþjónustunni.