141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

málefni Íbúðalánasjóðs.

[15:58]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Herra forseti. Ég ætla að fara aðeins yfir pólitíkina í þessu máli. Mig langar fyrst að svara því aðeins sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson sagði áðan. Ef varúðarsjónarmiðum hefði verið fylgt eins og til stóð í upphafi væri Íbúðalánasjóður ekki í þeim vandræðum sem hann er í í dag, þ.e. þá hefði hann haldið eftir nægilega miklu af húsnæðisbréfum til að hann stæðist áhlaup.

Herra forseti. Stjórn Íbúðalánasjóðs var pólitískt skipuð af þeim stjórnarmeirihluta sem þá var við völd. Stjórnendur Íbúðalánasjóðs voru pólitískt ráðnir, þar á meðal forstjórinn, fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins. Fjármálaeftirlitið sem átti að hafa eftirlit með Íbúðalánasjóði var líka pólitískt skipað og forstjóri Fjármálaeftirlitsins var pólitískt ráðinn úr sama flokki og forstjóri Íbúðalánasjóðs og þáverandi félagsmálaráðherra, úr Framsóknarflokknum.

Ég vona að við getum í framtíðinni lært af svona vinnubrögðum, herra forseti, því að þetta kostar skattgreiðendur landsins tugi ef ekki hundruð milljarða. Minnisblaðið sem ég hef hér undir höndum þar sem farið er rækilega yfir alla þessa sögu var kynnt fyrir þáverandi fjármálaráðherra, Árna Mathiesen, þáverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu og skrifstofustjóra á fjárreiðu- og eignaskrifstofu. Þeir tóku ekkert mark á því og ráku yfirmenn Lánasýslu ríkisins til baka með það og vildu ekki hlusta á varnaðarorðin þannig að það eru margir fleiri sem eiga hér sök að máli. Þetta gerist þegar menn láta pólitíkina ráða för en ekki skynsemina og ekki almannahag.

Rannsóknin sem nú stendur yfir á Íbúðalánasjóði mun draga mjög margt fram í dagsljósið af þessu sem ég hef rætt hér um. Ég vona að Alþingi láti kenna sér hvernig á ekki að haga málum í framtíðinni. Alþingi og stjórnmálamenn ættu að reyna að læra af þessari reynslu og vonandi bera þeir gæfu til þess því að aðkoma þeirra að þessu máli er frá upphafi til stórskammar (Forseti hringir.) fyrir stjórnmálin á Íslandi og endurtekur sig vonandi aldrei.