141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[16:23]
Horfa

Erla Ósk Ásgeirsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svör hans.

Að mínu mati eru það ekki skatttekjur sem tryggja velferð í landinu heldur einfaldlega einstaklingarnir, verðmætasköpunin og fyrirtækin. Við getum ekki lifað á skatttekjum einum og sér og verðum að hugsa það í aðeins breiðara samhengi. Við þurfum að leggja áherslu á að breikka grunninn sem við byggjum á og gefa fyrirtækjum og einstaklingum svigrúm og athafnarými til að nýta krafta sína í þágu íslensks samfélags. Það gerum við ekki með hærri skattlagningu.

Ég ber virðingu fyrir norræna módelinu. Við sjálfstæðismenn höfum alltaf lagt áherslu á að tryggja gott velferðarnet. Við höfum lagt áherslu á heilbrigðismál, velferðarmál, lögregluna og réttarríkið. Það þurfum við að hafa í heiðri.

Varðandi séreignarsparnaðinn þá fullyrti ég ekki að hann stæði undir einkaneyslunni en við sjáum tölur þess efnis að menn virðast hafa verið að taka út hátt í 400 milljarða á tveimur árum. Það gefur til kynna að ástandið sé meiri háttar óvenjulegt. Við þurfum að vera vakandi fyrir því að tölurnar sem við fáum séu réttar og að við bregðumst rétt við þeim.