141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[17:12]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Nú ræðum við tekjuöflunarleiðir ríkisstjórnarinnar eftir langa atkvæðagreiðslu um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar sem hefur sætt mikilli gagnrýni meðal þingmanna Framsóknarflokksins, enda ekki annað hægt þar sem verið er að setja fjárlög langt fram í tímann og langt inn á næsta kjörtímabil án forgangsröðunar að mínu mati.

Mig langar að vísa í síðustu atkvæðagreiðslu um það frumvarp vegna þessa græna sjóðs sem lagt er til að fái 500 millj. kr., vegna heimildar til að stofna þann sjóð af framtíðartekjum af veiðigjaldi og vegna sölu á fjármálafyrirtækjum. Það er sama upphæð og lögregluna vantar inn í sinn rekstur til að hún geti sinnt sínu lögbundna hlutverki. Þess vegna segi ég enn og aftur að forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar er í molum. Sem betur fer er mjög stutt í kosningar og þá verður hægt að snúa af þeirri stefnu sem þessi ríkisstjórn fer fyrir.

Hér er verið að leggja til enn fleiri skattahækkanir og má með sanni segja að ekki sjáist nein merki um skjaldborg heimilanna og velferðarbrýr sem þessi ríkisstjórn, velferðarríkisstjórnin eins og hún kynnti sig, talaði fjálglega um fyrir síðustu kosningar. Rétt er að minnast á það einnig í upphafi að hér tala stjórnarliðar, sérstaklega þingmenn Samfylkingarinnar, eins og þeir séu nýkomnir inn í ríkisstjórn. Það er erfitt að koma þeim í skilning um að nú hefur Samfylkingin setið fimm ár í ríkisstjórn, en viðkomandi þingmenn berjast stöðugt við einhverja fortíðardrauga. Ég spyr: Hvenær verður fyrningin búin og hvenær fer þetta fólk að tala í nútíðinni? Einhvern tímann var sagt úr þessum ræðustóli að líklega hefði þessi ríkisstjórn valdið meira tjóni á íslensku samfélagi en bankahrunið sjálft, svo margar rangar ákvarðanir hafa verið teknar. Ég hef sagt það áður að hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon hefur líklega komið út fleiri og hærri ríkisábyrgðum en tíðkast hafa um langa hríð.

Þar sem umhverfis- og auðlindamál eru mitt hjartans mál langar mig aðeins til að grípa niður í þá breytingu sem verður samkvæmt 16. gr. frumvarpsins. Þar eru lagðar til breytingar á kolefnisgjaldi af eldsneyti sem inniheldur kolefni af jarðefnauppruna.

Forsaga málsins er sú að árið 2010 átti að setja hér á kolefnisgjald og var það styrkt með lögum um umhverfis- og auðlindaskatta, nr. 129/2009, og nú er einmitt verið að leggja til að þeim verði breytt á ný. Rétt er að geta þess að við upptöku kolefnisgjaldsins sem þessi ríkisstjórn fann raunverulega upp á var gert ráð fyrir að þeir skattar sem af því mundu leiða losuðu tæpa 16 milljarða. Það var upptakturinn í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2011 þannig að við sjáum það núna endurspeglast í þessu öllu saman í dag. Það hefur heldur betur hrapað og samkvæmt tekjufrumvarpinu er kolefnisgjaldið komið niður í 3,4 milljarða.

Þetta skýrist með því að þrátt fyrir mikil varnaðarorð frá upphafi þessa kolefnisgjalds á flug var ekki hlustað á sjónarmið stjórnarandstöðunnar og ekki litið á þau rök sem lágu til grundvallar því að upphaflega var þetta lagt á allt flug, innanlandsflug og millilandaflug. Ég eyddi löngum tíma í ræðustól í að benda á að samkvæmt Chicago-samningnum mætti ekki leggja skatta á millilandaflug og þess vegna væri það ómarktækt og ætti hvorki að setja það inn í frumvarpið né gera ráð fyrir þeim tekjum inn í ríkissjóð.

Svo fór sem fór, ríkisstjórnin var gerð afturreka með kolefnisgjaldið á millilandaflugið vegna þess að eitt ríki má ekki skattleggja millilandaflug og skuldbinda þar með önnur ríki til að taka slíkt upp.

Virðulegi forseti. Það endaði svo að innanlandsflugið sat eitt uppi með þessa gjaldtöku sem hæstv. þáverandi fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon barðist mjög fyrir. Hvað þýðir það? Jú, við búum á eyju og landsmenn eru nokkuð háðir flugi, þ.e. þeir sem ekki hafa brugðið á það ráð vegna hækkunar flugfargjalda að keyra á milli. Það er orðin spurning hvort er dýrara að fljúga eða keyra vegna þess að samhliða hefur ríkisstjórnin lagt svo miklar álögur á olíu og bensín að þetta skilaði sér að sjálfsögðu beint út í verðlagið og þýddi að flugfargjöld hækkuðu mjög mikið. Á móti voru settir á plástrar þannig að flugið var styrkt að einhverju leyti á móti en þetta er dæmi um skattlagningu sem skilar sér ekki til ríkissjóðs, í fyrsta lagi vegna hækkunar vörunnar og í öðru lagi dregst saman neysla á viðkomandi vöru. Sú varð náttúrlega raunin.

Af því að við erum að ræða kolefnisgjald langar mig aðeins til að benda á að hér er verið að leggja til vörugjald á bensín sem er annar þáttur, það á að skila tæpum 5 milljörðum í ríkissjóð, sérstakt vörugjald af bensíni á að skila tæpum 8 milljörðum og kolefnisgjaldið, eins og ég fór yfir, einungis tæpum 3,5 milljörðum og olíugjaldið rúmum 7 milljörðum. Þarna er um að ræða alveg gríðarlegar upphæðir af þessum gjöldum.

Það sem lagt er til í frumvarpi þessu er breyting á innheimtunni vegna þess að þetta stóðst ekki. Nú eru menn búnir að átta sig á því. Á sama tíma og þetta var lagt til afsalaði ríkisstjórnin landsmönnum íslenska ákvæðinu í Kyoto-bókuninni, þ.e. þeim losunarheimildum sem við fengum í gegnum íslenska ákvæðið sem var metið á 15 milljarða kr. árið 2007. Það verð var ekki í hæstu hæðum þá en fór hækkandi. Þetta var lagt inn í þennan pott Evrópusambandsins og íslenska ákvæðið náðist fyrst og fremst í gegn af því að við erum að framleiða til dæmis ál með algjörlega grænni orku.

Ákveðin viðmið voru sett inn í Kyoto-bókunina um að það væri græn orka sem væri ekki fengin til dæmis með brennslu á kolum sem er mjög mengandi. Fyrir harðfylgi okkar ágæta þingmanns Sivjar Friðleifsdóttur sem þá var umhverfisráðherra náðist þetta í gegn. Hæstv. utanríkisráðherra sagði á sínum tíma að þetta íslenska ákvæði yrði hlegið út af borðinu í samningaviðræðunum en þessu var nú samt landað.

Ríkisstjórnin tók þessa ákvörðun, líklega vegna þess að á þeim tíma var búið að leggja inn umsókn að Evrópusambandinu og þá tel ég að Evrópusambandið hafi gert þá kröfu að við yrðum að lúta þeim markaðslögmálum sem eru í gildi innan svæðisins, að allir skuli vera jafnir og að ekki mættu vera neinar hindranir þar í vegi. Síðan það varð að veruleika að ríkisstjórnin færi fyrir hönd þjóðarinnar með það að við skyldum verða aðilar að þessum losunarheimildabanka og við gengjum þarna inn hefur sigið á ógæfuhliðina í þessu máli. Þá kom jafnframt í ljós það sem ég hef varað við, að það er ekki hægt að tvískattleggja flugið.

Það kemur líka fram um 16. gr. í greinargerðinni, með leyfi forseta, að markmið kolefnisgjalds sé „að skattleggja kolefnisinnihald jarðefnaeldsneytis sem við bruna losar gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið. Það er því ákveðið ósamræmi falið í því að gas af jarðefnauppruna skuli vera undanþegið kolefnisgjaldi. Í greininni er því lagt til að jarðolíugasi og öðrum loftkenndum kolvatnsefnum verði bætt við upptalningu á þeim eldsneytistegundum sem bera gjaldið. Gert er ráð fyrir að gjaldið verði lagt á vörur sem flokkast í tollskrárnúmer sem innihalda gas eða annað loftkennt kolvatnsefni af jarðefnauppruna. Fjárhæð gjaldsins tekur mið af kolefnisgjaldi á annað jarðefnaeldsneyti og kolefnisinnihaldi eldsneytisins. Áætlað er að þessi viðbót komi til með að skila um 13 millj. kr. í ríkissjóð. Í greininni er jafnframt lagt til að kolefnisgjald á flugvéla- og þotueldsneyti verði fellt brott úr lögunum“ eðli málsins samkvæmt vegna þessarar tvísköttunar.

Svo kemur áfram í greinargerð, með leyfi forseta:

„Hingað til hefur kolefnisgjald ekki verið lagt á eldsneyti sem selt er á för með áfangastað í erlendri höfn á grundvelli þess að um útflutning er að ræða. Stór hluti, eða um 95%, af því flugvéla- og þotueldsneyti sem flutt er til landsins er seldur á flugvélar með áfangastað í erlendri höfn og hefur gjaldið því verið endurgreitt af þeim hluta. Innanlandsflug hefur hins vegar borið gjaldið frá gildistöku laganna. Þann 1. janúar 2012 féll innanlandsflug undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins … með losunarheimildir og þurfa flugrekendur í byrjun árs 2013 að standa skil á losunarheimildum …“

Þar með er fallin sú heimild sem sett var í lögin um að það ætti að leggja sérstakt kolefnisgjald á innanlandsflugið.

Það væri betra að það væri hlustað meira á stjórnarandstöðuna og þessari einstefnu hætt, einstefnu sem stundum hefur verið hjá þessari ríkisstjórn. Hér er um að ræða lagabreytingu sem var óþörf á sínum tíma og nú hefur komið á daginn allt sem sagt hefur verið í aðdraganda setningar laga um umhverfis- og auðlindaskatta.

Það þarf að gera þessa lagabreytingu. Ef ríkisstjórnin hefði haldið áfram að tvískatta þessa atvinnugrein hefðu þurft að koma til miklar endurgreiðslur en hún sá að sér á lokametrunum og breytti þessu. Þar sem landið er eyja erum við, eins og ég sagði áðan, mjög háð fluginu og það er sorglegt að þetta kolefnisgjald frá árinu 2010 og þar til nú hafi verið lagt á innanlandsflugið. Nú fyrst eru farnar að bíta þessar losunarheimildir frá Evrópusambandinu.

Það er ekki mikill tími sem fæst til að ræða við 1. umr. eins víðtækt frumvarp og hér liggur fyrir. Þingmönnum er skaffaður mjög takmarkaður tími. Hér eru hækkanir á mörgum sviðum og ég er til dæmis undrandi á því að enn sé útvarpsgjaldið hækkað. Mér finnst ófært að það skuli vera hækkað þegar ekki er vitað hvað af því skilar sér beint til Ríkisútvarpsins og hvað fer í ríkiskassann og er ráðstafað í önnur verkefni. Akkúrat eins og með sóknargjöldin er mjög óskýrt hvað fer í þessar stofnanir, annars vegar Ríkisútvarpið og hins vegar þjóðkirkjuna. Því hefur verið haldið fram að til dæmis vanti þjóðkirkjuna rúmlega 2 milljarða af því gjaldi sem innheimt er í gegnum fjárlagafrumvarpið, að það skili sér ekki inn í reksturinn þar sem það á að vera. Þegar ríkið leggur af stað með eyrnamerkta kostnaðarliði ber því að skila fénu og fjöldamörg álit frá umboðsmanni Alþingis hafa staðfest það.

Það má raunverulega segja að þegar svo sérhæfð gjöld eru lögð á virki ríkissjóður eins og vörsluaðili fyrir ákveðið fjármagn, nákvæmlega eins og þeir aðilar sem selja vöru og þjónustu eru vörsluaðilar ríkissjóðs gagnvart virðisaukaskattinum og ber að skila honum til ríkissjóðs eins og hann kemur fyrir samkvæmt uppgefnum sölutölum. Þetta er nokkuð sem fjármálaráðherra hefur farið fram með, að gera ekki skilsmun á þessu tvennu. Svo blandast þetta líka inn í gjöld og skatta. Hvort eru þetta skattar eða gjöld? Ef útvarpsgjald er gjald ber að skila því eins og það er innheimt hjá ríkinu en ef um skatt er að ræða hefur ríkið heimild til að dreifa honum á fleiri þætti.

Þetta er umræða sem ég minnist alltaf á þegar við erum að ræða tekjuhlið ríkisins. Oft og tíðum finnst mér ekki á hreinu að þeir sem semja þessi frumvörp viti hvort um gjald eða skatt (Forseti hringir.) er að ræða.