141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[18:17]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég held að heilmikið gagn geti verið af andsvörum. Auðvitað stunda menn þau með mismunandi hætti, í mismunandi tilvikum líka.

Ég hefði talið að það væri mjög til gagns fyrir þessa umræðu ef þingmenn stjórnarflokkanna kæmu hingað, þó ekki væri nema að menn tylltu hér inn tá og tækju aðeins þátt í umræðunum, til dæmis í formi andsvara. Það getur ekki verið mjög erfitt. Ég veit að hv. þingmenn eru uppteknir, þingmenn stjórnarflokkanna. Þeir eru til dæmis að reyna að leysa erfið mál sín á milli og maður hefur alveg skilning á því að þeir geti ekki sinnt almennum þingstörfum í þingsalnum, en að öðru leyti væri náttúrlega mjög gagnlegt ef þeir kæmu hingað. Ég vil sérstaklega nota tækifærið og hvetja til þess að hæstv. fjármálaráðherra sem flutti þetta mál komi hingað til umræðunnar, sitji undir henni og hlýði á okkur þingmenn. Ég mun til dæmis þurfa að spyrja hæstv. fjármálaráðherra allmargra spurninga í ræðu minni á eftir. Ég vil beina því til hæstv. forseta og óska eftir því að hæstv. fjármálaráðherra sé hérna, taki þátt í andsvörum og leggi sitt til málanna til að greiða fyrir umræðunni í kvöld.