141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[18:49]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður gerði mjög að umtalsefni það ákvæði í þessum bandormi sem hvað mest hefur verið rætt sem er skattlagningin á ferðaþjónustuna, annars vegar á gistiþjónustuna og hins vegar á bílaleigubílana. Það sem vekur athygli, þegar við veltum þessu fyrir okkur, er það, eins og hv. þingmaður nefndi, að ríkisstjórnin kemur þarna fram með mjög stórkarlaleg áform um að skattleggja gistiþjónustuna strax fyrir mitt ár næsta ár, úr 7% upp í 25,5% í nýjum virðisaukaskatti. Síðan verða mjög harkaleg viðbrögð. Þegar mælt er fyrir fjárlagafrumvarpinu í september tekur maður strax eftir því að menn er farið að bera af leið, eru farnir að flýja. Það er farið að tala utan af því að kannski verði hægt að breyta þessu og kannski verði reynt að koma til móts við sjónarmið ferðaþjónustunnar. Einkanlega var rætt um að skynsamlegast væri að gera það með því að fresta þessu fram til haustsins. Nú hefur ríkisstjórnin hins vegar ákveðið að gera það ekki heldur að hefja þessa skattlagningu á sama tíma og ætlað var en hafa hana aðeins lægri.

Ég vil spyrja hv. þingmann um þetta vegna þess að ég er með undir höndum yfirlit frá KPMG um rekstur hótelfyrirtækja á árinu 2011. Það kom mér satt að segja á óvart að lesa það í þessu hversu rekstrarafkoma hótelanna er slök þrátt fyrir allt. Jafnvel 14% virðisaukaskattur, sem lagður verður á 1. maí eftir að menn eru búnir að selja mikið af sínum ferðum — þá sjáum við hvaða áhrif þetta hefur í ljósi þess að hótel í Reykjavík hafa ekki nema 2,6% EBITDA, þ.e. upp í fjármagnsliðina eftir að búið er að borga rekstrarkostnaðinn, og landsbyggðin 17%. Það sjá allir í hendi sér að þetta mun þýða að í tilviki hótelanna í Reykjavík veldur skattheimtan því, ef hún leggst bara á hótelin, ef þau geta ekki ýtt þessu af sér yfir á kúnnana, að það verður öfugt fjárstreymi frá rekstri, það verður ekkert upp í fjármagnsliði, ekki einu sinni til að borga reksturinn (Forseti hringir.) og síðan verður það hlutskipti landsbyggðarinnar að menn geta ekki borgað neinn fjármagnskostnað.