141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[21:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi er alveg ljóst, og við sáum það t.d. bara á fréttum dagsins um stórar fjárfestingar í ferðaþjónustu, að ferðaþjónustan er orðin stærðarinnar og öflug þjónustugrein hér á landi. Hún er ein af okkar mikilvægustu atvinnugreinum. Það er alveg gríðarleg aukning í komu ferðamanna utan háannatíma, 60% aukning milli ára í nóvember síðastliðnum, þannig að það sést að átakið sem ríkisvaldið hefur ráðist í með ferðaþjónustunni Ísland allt árið er byrjað að virka. Við sjáum fram á áframhaldandi verðmætasköpun tengda ferðaþjónustu á komandi árum.

McKinsey-skýrslan lagði ekki áherslu á að við mundum fjölga ferðamönnum út í eitt. Hún lagði fyrst og fremst áherslu á framlegðina úr ferðaþjónustunni og að við næðum sem mestu út úr komu ferðamanna hingað til lands. Ég er algjörlega sammála því. Þess vegna leggjum við áherslu á að ferðamenn komi meira yfir allt árið en eingöngu á sumrin. Ferðamenn sem koma til dæmis yfir vetrartímann eru mun verðmætari en margir þeir sem koma að sumri til.

Virðulegi forseti. Ég held að við getum verið sammála um ýmislegt í þessari umræðu. Ég held ekki að það að hækka gistinguna aftur í 14% virðisauka muni hafa þau fælingaráhrif sem hv. þingmaður nefndi. Það er þriðjungur af þeirri hækkun sem boðuð var þannig að mér er það mjög til efs að það eigi eftir að hafa þau áhrif.

Varðandi McKinsey-skýrsluna vil ég líka nefna að í henni komu fram akkúrat sömu áherslur og við vorum með í fjárlagafrumvarpinu varðandi hugvitsgreinarnar: Vöxturinn í framtíðinni verður í hugvitsdrifnum útflutningi.

Hvað gerðum við í dag? Við lögðum fé í Kvikmyndasjóð, í skapandi greinar og grænar fjárfestingar. Hvað er það annað en hugvitsdrifinn iðnaður sem síðan verður að öflugum útflutningi? Ekkert annað. Það sem við gerðum í dag var akkúrat í takti við ráðleggingar McKinsey. (Forseti hringir.)