141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[21:17]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Við ræðum um ráðstafanir í ríkisfjármálum, tekjuöflunaraðgerðir, kjarasamninga, verðbreytingar og fleira. Það hefur verið mjög fróðleg umræða hér í dag. Sérstaklega var fróðlegt að heyra orðaskipti hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar og hæstv. ráðherra, Katrínar Júlíusdóttur, þegar fjallað var um skattlagningu á ferðaþjónustu. Það væri fyrst og fremst umræðan í þingsal sem væri farin að skaða ferðaþjónustuna en ekki þær aðgerðir og sú umgjörð sem ríkisstjórnin væri að búa þeirri atvinnugrein og gerði henni erfitt uppdráttar.

Það sem við erum að ræða núna, þ.e. skattalöggjöfin, skattumgjörðin og allt í kringum það, er það sem hefur mest áhrif á hvernig okkur gengur að byggja upp atvinnu. Ég ætla í ræðu minni að fara aðeins yfir samanburð á stöðu Íslands við ýmis nágrannaríki okkar og ríki víða í heiminum. Ég var nefnilega að fylgjast með umræðum úr norska Stórþinginu. Þar voru menn að bera Noreg saman við ýmis erlend ríki og notuðu til þess nýútkomna skýrslu, The Global Competitiveness Report, sem gefin er út af World Economic Forum, og þar er samanburður á 144 löndum, þ.e. umgjörð fyrirtækja og skattumgjörð þeirra og hvað það er sem hefur áhrif á rekstur fyrirtækja í þeim 144 löndum.

Talað hefur verið um, ekki hvað síst af hv. þingflokki Samfylkingarinnar, að Íslendingar þurfi að ganga í Evrópusambandið, taka upp evru og annað því um líkt, fyrr muni umgjörðin hér ekki batna. Þess vegna er mjög fróðlegt að skoða áðurnefnda skýrslu og skoða stöðu Íslands núna á árinu 2012, en eins og ég sagði er í henni samanburður á 144 löndum. Af sex þáttum sem hafa áhrif eða eru vandamál í rekstri fyrirtækja á Íslandi að mati skýrsluhöfunda er einn þáttur meðal annars upphæð skatta á fyrirtæki. Annar þáttur er pólitískur stöðugleiki, þ.e. hinn pólitíski óstöðugleiki hér á landi er einn af áhættuþáttunum. Það er síðan málefnalegur óstöðugleiki, þ.e. hversu hratt stjórnvöld skipta um skoðun í stóru máli. Þetta erum við til að mynda að sjá núna í ferðamannaskattinum. Það er málefnalegur óstöðugleiki þegar menn vaða fram með hugmyndir um skattahækkanir sem á enga lund ganga upp og koma öllu í uppnám. Og það er þá sem áhættuþættir sem þessir hækka.

Síðan er það óskilvirkt embættismannakerfi sem veldur verulegum vanda í rekstri fyrirtækja hér á landi og svo skattalöggjöfin sjálf og skattumgjörðin, þ.e. ekki upphæð skattanna heldur skattalöggjöfin og skattumgjörðin. Þessir þættir allir eru pólitísks eðlis. Staðreyndin er sú að í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur þeim þáttum öllum hrakað stórlega. Ég ætla að koma inn á það í ræðu minni.

Ef við tökum til að mynda samanburð á Íslandi og öðrum 143 löndum þegar kemur að því hvaða áhrif skattumgjörð hafi á fjárfestingar og atvinnuuppbyggingu í viðkomandi landi er Ísland þar í 119. sæti af 144 sætum. Þetta er alþjóðlegur samanburður milli margra landa sem kemur fram í skýrslunni.

Árið 2011 var Ísland í 114. sæti. Árið 2010 var Ísland í 37. sæti. Landið hefur því fallið á tveimur árum, árið 2010 vorum við komin tveimur árum eftir hrun. Á tveimur árum frá 2010 til 2012 hefur Ísland fallið í þessum samanburði úr 37. sæti niður í 119. sæti. Það eru lönd sem hafa farið upp fyrir okkur á þeim tíma, milli áranna 2011 og 2012, til að mynda Níkaragva, Simbabve, Venesúela, Kólumbía og Haítí.

Þegar kemur að því hvaða áhrif skattumgjörð hefur á fjárfestingar og atvinnuuppbyggingu er Haítí í 118. sæti og Ísland í 119. Í fyrra vorum við þó fyrir ofan Haítí ef við höldum áfram að bera saman. Síðan er það samanburður á heildarsköttum fyrirtækja, þeim sköttum sem ná til fyrirtækjareksturs. Það eru tryggingagjöld, fyrirtækjaskattur og aðrir skattar sem hafa áhrif á almennan fyrirtækjarekstur. Árið 2010 var Ísland í 19. sæti af 144 löndum sem er nokkuð gott. Árið 2011 var Ísland komið niður í 26. sæti. Árið 2012 erum við komin í 42. sæti. Með þessu áframhaldi, frú forseti, eitt kjörtímabil enn með sitjandi ríkisstjórn verðum við komin niður í 120. sæti. Ríki sem eru fyrir ofan okkur í dag þegar kemur að heildarskattlagningu á fyrirtækjarekstur eru — svo tekin séu nokkur dæmi úr sætunum fyrir ofan okkur en Ísland er í 42. sæti — Nepal, Rúanda, Moldavía, Ísrael, Eþíópía, Líbanon, Kasakstan og Búlgaría. Virðulegi forseti. Þetta er eitthvað sem maður er ekki stoltur af að fara með.

Ef við skoðum í umræddri skýrslu — ég tek aftur fram að þetta er alþjóðlegur samanburður sem er unninn af mörgum virtum háskólum vítt og breitt um heiminn á 144 þjóðríkjum — kostnað við regluverk sem stjórnsýslan er að skapa, þ.e. stjórnsýslulegan kostnað fyrirtækja af umgjörð regluverks, og þar eru borin saman 144 lönd. Ef við skoðum hver þróunin er er Ísland núna í ár í 20. sæti. Margir mundu hugsa: Já, það er ágætt, við erum þá ekki í 100. sæti eins og þegar kemur að skattlagningunni. En ef við skoðum hver þróunin hefur orðið síðustu tvö ár var Ísland í 16. sæti árið 2011 og árið 2010 var Ísland í 12. sæti. Okkur er því að hraka. Okkur hefur hrakað um helming á þeim lista á tveimur árum.

Frú forseti. Allt það sem ég hef rakið eru þættir sem hafa neikvæð áhrif á fyrirtæki eins og ég kom inn á í upphafi máls míns. Einn af sex þáttum sem hafa neikvæð áhrif á rekstur fyrirtækja á Íslandi eru gjaldeyrishöftin. Hinir fimm þættirnir eru þeir sem ég rakti áðan, þ.e. pólitískur stöðugleiki er neikvæður, málefnalegur stöðugleiki er neikvæður, breytingar á skattareglum eru neikvæðar, embættismannakerfið er að verða meiri byrði á atvinnulífinu ár frá ári, það er að verða óskilvirkara. Þessir þættir gera það að verkum að Ísland fellur niður þennan lista.

En Ísland stendur sig mjög vel á öðrum sviðum. Þegar kemur til dæmis að menntunarstigi þjóðarinnar komum við mjög vel út. Þegar kemur að því hversu viljug fyrirtæki og þeir sem eru í fyrirtækjarekstri eru tilbúnir til að taka upp tækninýjungar og vera opnir fyrir nýjungum í rekstri kemur Ísland mjög vel út. Þegar kemur að netnotkun, tölvunotkun og tölvuþekkingu, interneti og annarri tækni kemur Ísland mjög vel út. Ísland mundi koma mjög vel út ef ekki væri fyrir þá stefnu sem við höfum búið við í þessum málaflokkum undanfarin ár og gerir það einfaldlega að verkum að samkeppnisstaða fyrirtækja á Íslandi versnar árlega.

Frú forseti. Ég held að óhætt sé að segja að það eigi að vera sameiginlegt markmið okkar í þessum sal — við vitum að atvinnulífið, af hverju er ég að tala um það? Af því að verið var að tala um ferðaþjónustuna áðan. Og hvernig unnið hefur verið að skattkerfisbreytingunum í ferðaþjónustunni er akkúrat dæmi, skólabókardæmi, um það að við lækkum á þessum listum.

Ég held að það ætti að vera, frú forseti, sameiginlegt markmið okkar sem störfum á þessum vinnustað þegar við tölum um áhrif skattumgjarðar á fjárfestingar í atvinnulífi og atvinnuuppbyggingu að vera með þau háleitu markmið að vera ofar en Haítí, með fullri virðingu fyrir því ríki, á listanum, vera ofar en ríki á borð við Kólumbíu, Ekvador, Venesúela, Simbabve, Níkaragva, Moldavíu, Kenía og fleiri ríki. Það eru ekki nema tvö ár síðan við vorum fyrir ofan þau ríki. Hvað hefur gerst, frú forseti?

Frú forseti. Eins og ég sagði áðan er þetta akkúrat skólabókardæmi um það úr ferðaþjónustunni, með sama hætti og við sáum þegar skattar voru hækkaðir á fyrirtæki sem störfuðu m.a. á Grundartanga fyrir ekki svo löngu, þá var það gert án alls samráðs. Það er akkúrat þetta sem verið er að tala um. Það er einmitt þessi pólitíska óvissa og þessi pólitíski óvissuþáttur.

Svo koma menn hingað, jafnvel hæstv. ráðherrar, og leyfa sér í ræðustól að saka þingmenn um að þeir séu að valda svo miklu tjóni á ferðaþjónustu í landinu. Var það meiri hluti þingheims sem lagði til að leggja hæsta virðisaukaskatt á byggðu bóli á gistinætur á Íslandi? Nei, það var hæstv. ríkisstjórn. Var það þingheimur sem gerði það án þess að vera í samráði við nokkurn mann? Nei, það var hæstv. ríkisstjórn.

Frú forseti. Á meðan þetta ástand er viðvarandi vinnur það gegn allri nýsköpun í atvinnulífinu. Það vinnur gegn öllum þeim fjölmörgu hugmyndum sem eru í gangi í atvinnuuppbyggingu vítt og breitt um landið. Maður verður vitni að því þegar maður fer um og hittir einstaklinga í atvinnurekstri að þeir þora ekki af stað í framkvæmdir eða atvinnuuppbyggingu einmitt af þeirri ástæðu sem ég rakti hér áðan. Það er ekki vegna þess að þeir hafi ekki markaði fyrir vörur sínar. Það er ekki vegna þess að þeir hafi ekki mannskap til þess að vinna. Það er ekki vegna þess að þeir geti ekki fjármagnað það með einhverjum hætti. Það er vegna þess að hinn pólitíski óstöðugleiki er farinn að hamla rekstri fyrirtækja. Þá bitnar það auðvitað verst á litlu og meðalstóru fyrirtækjunum, á fyrirtækjunum og vaxtarsprotunum í samfélaginu, á þeim fyrirtækjum sem skapa stærstan hluta af hagvextinum.

Frú forseti. Þetta er grafalvarleg staða. Ég vil skora á okkur öll sem erum hér inni að taka nú höndum saman og vinna að því að skapa atvinnulífinu þá umgjörð að það geti dafnað, að það geti sótt fram, að það geti skapað þann hagvöxt sem við þurfum í samfélaginu til að standa undir meðal annars skuldum ríkissjóðs, og að það geti skapað þann hagvöxt að við getum byggt upp heilbrigðiskerfi, menntakerfi og fleiri mikilvæga þætti.

Virðulegi forseti. Takist okkur það þurfum við, íslensk þjóð, ekkert að óttast því að við eigum gríðarleg sóknarfæri. Miðað við þær aðstæður sem skapaðar hafa verið undanfarin ár er ótrúlegt að sjá þann kraft sem er í íslensku fólki, sem er í íslenskum fyrirtækjum og sem er í þjóðinni allri þegar kemur að atvinnuuppbyggingu, en fyrrnefndar samanburðartölur sýna það ekki. Það er ekki vegna þess að ríkisstjórn Íslands hafi skapað þá umgjörð. Alls ekki.

(Forseti (ÁRJ): Forseti gerir nú hlé á þessum fundi í fimm mínútur. Fundinum er frestað um fimm mínútur.)