141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

ný byggingarreglugerð.

[13:49]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhuga hans á byggingarreglugerð og að standa vaktina í atvinnuveganefnd í þeim efnum. Eins og kom fram í máli hans eru þarna gríðarlega miklir hagsmunir á ferðinni, hagsmunir þeirra sem starfa samkvæmt byggingarreglugerð og ekki síður hagsmunir almennings. Eins og kom fram í máli hans er það rétt að sumir aðilar segja, og það er ágætisorðalag hjá hv. þingmanni, að um sé að ræða mikla hækkun sem stafar af byggingarreglugerðinni. Við það mat hefur ekki verið tekið tillit til þeirra breytinga sem standa nú yfir, þ.e. þeirra sem ég hef lagt til að verði gerðar á reglugerðinni áður en hún gengur endanlega í gildi nú um áramótin. Það eru fyrst og fremst breytingar að því er varðar kröfur um einangrun húsa og sveigjanleika að því er varðar rýmisstærðir.

Það liggur fyrir mat sem Mannvirkjastofnun lét gera á kostnaðarhækkununum sem eru fyrir hendi eftir að tilvitnaðar breytingar voru gerðar og þar er gert ráð fyrir því að kostnaðaraukinn sé óverulegur. Raunar er talað um að hann sé innan við 1%. Það má ætla miðað við sambærilegar breytingar í löndunum í kringum okkur að breytingarnar til hækkunar á kostnaði séu mestar fyrstu missirin eftir að breytingin gengur í gegn vegna þess að eftir það hafa hönnuðir, arkitektar og aðrir þeir sem vinna samkvæmt reglugerðinni í auknum mæli tileinkað sér sveigjanlegar útfærslur og nýjar leiðir til að koma til móts við auknar kröfur. Ég vænti þess að hið sama gildi um okkar góða fagfólk. Kjarni málsins er sá að við erum að færa íslenska byggingarreglugerð í áttina til nútímans, í áttina til þeirra krafna sem gerist í löndunum í kringum okkur og fyrst og fremst í þágu aðgengis fyrir hreyfihamlaða.