141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

um fundarstjórn.

[14:20]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég er svo gæfusamur að vera framsögumaður þessa máls í umhverfis- og samgöngunefnd og strax og málið var tekið fyrir í þeirri nefnd 15. október sagði ég að það væri mín skoðun að okkur bæri að klára fyrst þingsályktunartillöguna. Síðan væri sjálfsagt að snúa sér að þessum breytingum á lögunum og athuga hvaða aðrar breytingar kæmu til greina á þeim. Þau voru samþykkt samhljóða á sínum tíma en það er sjálfsagt að skoða hvaða breytingar koma nú til greina.

Allan tímann var ljóst að jafnvel þó að við hefðum samþykkt þetta mál strax hefði það ekki breytt afgreiðslu þingsályktunartillögunnar. Það eina í máli sjálfstæðismanna sem kemur þessari þingsályktunartillögu við er bráðabirgðaákvæði þar sem gert er ráð fyrir að allt verkið fari aftur til verkefnisstjórnar sem nú hefur lagt niður störf, þar á meðal til hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur sem sat í verkefnisstjórninni. Ef menn vilja gera þetta svona flytja þeir það sem breytingartillögu við þingsályktunartillöguna og ekki með öðrum hætti. Þessi málatilbúnaður (Forseti hringir.) er eiginlega fyrir neðan virðingu þeirra sem fyrir honum standa. Þá á ég ekki einkum við hv. þm. Birgi Ármannsson heldur frekar þingflokksformanninn Illuga Gunnarsson sem hefur staðið sig mjög furðulega að undanförnu.